132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Innflutningur á landbúnaðarvörum.

524. mál
[13:35]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. landbúnaðarráðherra um innflutning á landbúnaðarvörum og um innflutning á kjöti frá Argentínu.

Fyrir nokkrum árum eða veturinn 2001 var töluverð umræða um innflutning á kjöti og þá frá Írlandi. Þá geisaði gin- og klaufaveiki víða í Evrópu og var illskæð á Írlandi. Á þeim tíma var heimilaður innflutningur á nautalundum frá Írlandi þrátt fyrir að þar væru nokkur svæði sem voru sýkt og stóð um það töluverður styr, bæði innan þings og utan og var að lokum fallið frá sölu á því kjöti. En núna hefur verið nokkuð friðsamlegt á kjötmarkaðnum hvað varðar innflutning þar til í haust að það bar á skorti á nautakjöti í landinu. Miðað við þær aðstæður sem eru í þeim landbúnaðargeira, þ.e. nautgriparæktinni, kom auðvitað á sama tíma krafan um að flytja inn nautakjöt eins og má samkvæmt reglum okkar um innflutningstolla.

Á árinu 2001 var kallað eftir skýrari lögum um innflutning á kjöti þannig að ljóst væri að ekki væri verið að beita hindrunum um innflutning á kjöti undir yfirskini forvarna eða út frá heilbrigðissjónarmiðum manna eða dýra og beita þeim rökum en á bak við lægju hugsanlega viðskiptahindranir. Síðan þá hafa lögin verið hert og þá sérstaklega lög um dýrasjúkdóma og innflutning á dýrum. Það er því alveg ljóst að hæstv. landbúnaðarráðherra hefur fullt vald til að banna innflutning á kjöti og afurðum af spendýrum frá þeim svæðum sem hann telur að geti verið varhugaverð eða smit verið hjá. Því studdi ég hæstv. landbúnaðarráðherra þegar hann bannaði innflutning á nautakjöti frá Argentínu núna í vetur og fyrirspurn mín er svohljóðandi:

Hver er afstaða ráðherra til innflutnings á kjöti frá Argentínu með tilliti til þess að á nokkrum landsvæðum þar hefur nú, í annað sinn á fimm árum, komið upp gin- og klaufaveiki í nautgripum?

Hefur ráðherra í hyggju að setja frekari reglur um innflutning á landbúnaðarvörum frá (Forseti hringir.) löndum þar sem hættulegir búfjársjúkdómar hafa komið upp, svo sem um það hve langur tími skuli líða frá því að síðasta tilfelli greindist þar til (Forseti hringir.) innflutningsleyfi fást afgreidd?

Ég bið hæstv. forseta afsökunar en ég vildi koma báðum spurningunum á framfæri.