132. löggjafarþing — 73. fundur,  22. feb. 2006.

Útvarpslög.

79. mál
[14:09]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða athyglisvert mál sem felur í sér nokkra breytingu á umhverfi íslenskrar sjónvarpsmiðlunar nái það fram að ganga. Í sjálfu sér er hægt að taka undir markmið frumvarpsins og velta því fyrir sér hvort nauðsynlegt sé að skylda sjónvarpsstöðvarnar íslensku til að texta eða hafa þuli á þessum atburðum. Maður hugsar til slíkra uppákoma þegar verið er að kjafta ofan í skemmtilegar útsendingar og kannski eyðileggja þær. En á móti má spyrja hvort það sé ekki akkúrat það sem geri íslenska sjónvarpsstöð íslenska að stöðin hafi einhvers konar skyldur að einhverju leyti til að liðka til fyrir þeim hlustendum og áhorfendum sem skilja ekki erlend tungumál — þetta frumvarp er komið fram að miklu leyti út af ensku knattspyrnunni — fyrir börnum, fyrir eldra fólki og fyrir þeim sem einfaldlega ekki skilja erlendar tungur og þannig að þetta sé íslensk sjónvarpsstöð. Það er mikill munur á því á netinu. Netið er netið. Það lýtur sínum eigin lögmálum. Þar ná menn þeim útsendingum sem þeir kjósa. En íslensk sjónvarpsstöð er íslensk og einhverjar varnir þurfum við að reisa þarna. Menn hafa haft miklar áhyggjur af því að eftir nokkra áratugi verði íslenskan farin nánast í hundana og hér talað eitthvert hrognamál á milli ensku og íslensku sem enginn vill hvorki heyra né skilja núna. Því spyr ég hv. þingmann: Hefur hann ekki áhyggjur af því að þetta sé í rauninni högg greitt íslenskri tungu, að þetta verði til þess að veikja hana enn þá frekar, hvort ekki yrði að grípa til einhverra mótvægisaðgerða eða fara hálfa leið þannig að hægt væri að senda svona út en það væri þó einhver þjónusta við þá sem skilja ekki erlenda tungu eða einhverjir varnaglar slegnir?