132. löggjafarþing — 73. fundur,  22. feb. 2006.

Þróunarsamvinna Íslands við önnur ríki.

137. mál
[14:33]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, 1. flutningsmanni þingsályktunartillögunnar, fyrir ítarlega og góða inngangsræðu um þetta brýna mál. Eins og fram kom í máli hennar er mjög brýnt að tekið verði á þessum málum, framlögum okkar til þróunarmála, með mjög afgerandi hætti. Ég held að það sé góð hugmynd og afar mikilvægt að fleiri aðilar komi að og ég fagna því að sérstaklega eru nefndir aðilar eins og Rauði kross Íslands og mannfræðiskor Háskóla Íslands sem taki þátt í nefndinni og þessari stefnumótandi vinnu.

Þau fimm atriði sem nefndin hafi að leiðarljósi finnst mér líka mjög jákvæð og fyrsta atriðið, nauðsyn þess að efla menntun, mannréttindi og frelsi kvenna og stúlkubarna um allan heim, held ég að sé grundvallarþáttur í málinu. Við vitum að í mörgum þróunarlöndum er ástandið mjög alvarlegt, ólæsi kannski allt upp í 50% og bitnar þá jafnmikið á strákum og stelpum. En í mörgum löndum standa konur og stúlkur enn þá verr en drengir og karlar. Oft er talað um að erfitt sé og verra að vera svartur en hvítur og allra verst sé að vera svört kona eða stúlka.

Athygli vekur að í greinargerðinni er farið yfir þróunaraðstoð okkar Íslendinga og sagt frá því að hinn 28. maí árið 1985 hafi Alþingi ályktað um þróunaraðstoð Íslands og þá var samþykkt að á næstu sjö árum þar á eftir til ársins 1992 skyldi með reglubundinni aukningu framlaga ná því marki að opinber framlög Íslands til uppbyggingar í þróunarríkjum yrðu 0,7% af þjóðarframleiðslunni. Við erum dálítið langt frá að ná því markmiði en samt finnst mér að þarna sé boginn alls ekki spenntur mjög hátt. 0,7% af þjóðarframleiðslu er ekki nein rosaleg upphæð en getur auðvitað gert gæfumuninn í þróunaraðstoð. Vissulega hafa framlög okkar aukist nokkuð mikið en ekki nógu mikið.

Einnig kemur fram að árið 1996, á 121. löggjafarþingi, fluttu þingmennirnir Steingrímur J. Sigfússon og Margrét Frímannsdóttir tillögu til þingsályktunar um aukið framlag til þróunarsamvinnu en hún var aldrei afgreidd frá utanríkismálanefnd Alþingis. Ég vona að það verði ekki örlög þessarar þingsályktunartillögu.

Árið 2001 voru framlög íslenska ríkisins til þróunarmála 0,12% af vergri þjóðarframleiðslu, þau hafa hækkað nokkuð og voru komin þremur árum seinna, árið 2004, upp í 0,19%. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2005 á hlutfallið að fara upp í 0,21% sem er ekki mjög hátt og á þessu ári 0,239%. Ég lærði það í stærðfræðinni í gamla daga að það skipti máli að segja núll komma tvö, þrjú, níu prósent en ekki núll komma tvö hundruð þrjátíu og níu prósent vegna þess að það virkar miklu hærra. 0,7% virkar miklu minna en 0,70% en er auðvitað sama talan.

Það markmið er sett að þessi framlög verði stighækkandi þannig að árið 2009 munu þau ná 0,35% af vergri þjóðarframleiðslu og þar erum við þá aðeins búin að ná helmingnum af því sem gert var ráð fyrir í samþykkt Alþingis frá 1985. Þarna erum við ekki að standa okkur sérstaklega vel. Annars staðar á Norðurlöndum hafa menn verið að standa sig miklu betur í þessum málaflokki en við Íslendingar þrátt fyrir að gengisþróun hér á landi hafi verið okkur mjög hagstæð í þeim tölulega samanburði eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir kom inn á í ræðu sinni. Þess vegna held ég að við þurfum heldur betur að taka okkur á.

Ég fagna því að einmitt sé litið á það að höfð sé meiri samvinna við frjáls félagasamtök, sem eru fjölmörg, og þau styrkt sérstaklega. Áhugavert er að skoða í fylgiskjali II það sem tekið er úr skýrslunni: Ísland og þróunarlöndin – Álitsgerð um þróunarsamvinnu Íslands og þátttöku í starfi alþjóðastofnana (28. júlí 2003) eftir Hermann Örn Ingólfsson og Jónas H. Haralz. Þar er farið mjög nákvæmlega yfir þetta tölulega og þær upphæðir sem við höfum verið að setja í styrki og framlög til þróunaraðstoðar á fimm ára bili.

En við þurfum að gera miklu betur og ég vona að þessi þingsályktunartillaga verði til þess að mörkuð verði skýr stefna í umræddum málum. Það kemur einmitt fram í greinargerðinni að markmiðin þurfa að vera skýr og einföld og þau eru hér í fimm liðum og litið til þúsaldarmarkmiða einnig. Ég vona að utanríkismálanefnd hraði afgreiðslu málsins.