132. löggjafarþing — 73. fundur,  22. feb. 2006.

Sívinnsla við skil skattframtala.

142. mál
[14:49]
Hlusta

Flm. (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um sívinnslu við skil skattframtala. Flutningsmenn eru Valdimar L. Friðriksson, Rannveig Guðmundsdóttir, Össur Skarphéðinsson og Anna Kristín Gunnarsdóttir, þingmenn Samfylkingarinnar. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að stefnt skuli að sívinnslu við skil á skattframtölum fyrirtækja og einstaklinga með atvinnurekstur. Núverandi fyrirkomulag verði með öllu aflagt og í stað þess komi jöfn skil skattframtala febrúar til nóvember ár hvert.“

Í greinargerð segir m.a.:

Á undanförnum árum hefur skattkerfi landsins tölvuvæðst á sviði framtalsgerðar og skattskila. Hefur tekist vel til með öryggi kerfisins og má segja að nú sé vinnuumhverfið gerbreytt nema hvað varðar fyrirkomulag á framtalsskilum. Þar eru enn í gildi vinnureglur löngu liðins tíma handvinnslu og árstíðabundinna starfshátta. Sjálfstæðir atvinnurekendur í landinu eru um 17–18 þúsund talsins, án þess að taldir séu með svokallaðir lögaðilar, þ.e. hlutafélög, sameignarfélög og samvinnufélög. Endurskoðendum og bókurum er ætlað að ljúka uppgjörs- og framtalsvinnu fyrir þessa 17–18 þúsund aðila á 60 vinnudögum frá mars til maíloka. Á sama tíma þarf að vinna uppgjör og framtöl lögaðila en þeirri vinnu þarf að vera lokið í september ár hvert.

Afleiðing þessa úrelta fyrirkomulags er sú að ekki tekst að ljúka framtalsgerð fyrir einstaklinga með rekstur á tilskildum tíma og er því skattur áætlaður á allt að 25% þessara aðila með afleiðingum sem eru mikil og alvarleg óþægindi, ásamt verulegum kostnaði. Því er bæði tímabært og nauðsynlegt að breyta fyrirkomulagi skattskila og taka upp jöfn skil atvinnurekstrarframtala frá febrúar til nóvember ár hvert og hverfa alfarið frá núverandi skipulagi.

Núverandi fyrirkomulagi fylgir gífurlegt álag á endurskoðendur og bókara, sérstaklega á tímabilinu mars–maí. Síðan fá skattstofurnar bylgjuna yfir sig og eru fram á haust að komast fram úr þeirri vinnu sem þær eiga að inna af hendi lögum samkvæmt.

Það sem vinnst við það að taka upp sívinnslu er fyrst og fremst eftirfarandi:

Jöfn vinnsla uppgjörs og framtala ætti að tryggja vandaðri framtalsgerð og skapa eðlilegt vinnuumhverfi, en nú er það með öllu óviðunandi og engum bjóðandi. Síðast en ekki síst leiða jöfn skil framtala til þess að hægt verður að taka upp reglubundið og skipulegt skatteftirlit sem síðan tryggir öruggari og betri skattskil. Sá sem hefur mestan ávinning af því að taka upp nútímavinnubrögð við framtalsskil er ríkissjóður, þannig að sú breyting eða þróun sem hér er lögð til felur í sér marga mjög jákvæða þætti til hverrar áttar sem litið er. Komið hefur fram bæði í ræðu og riti hjá fjármálaráðherra, ríkisskattstjóra, skattstjórum landsins, endurskoðendum og bókurum að þessir aðilar vilja taka upp sívinnslu í skattskilum og falla frá núverandi fyrirkomulagi sem er í raun löngu orðið úrelt og því sem næst ónothæft.

Frú forseti. Ég legg til að þessari þingsályktunartillögu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar.