132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Fjárhagsvandi Háskólans á Akureyri.

[10:35]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu og fá um leið kærkomið tækifæri til að gera þingheimi grein fyrir því að við höfum í samvinnu við háskólarektor verið að fara gaumgæfilega yfir fjárhagsmálefni Háskólans á Akureyri. Það höfum við auðvitað gert með það í huga að gera hann sterkari og öflugri til að ganga til móts við nýja tíma, aukna samkeppni og fleira í háskólamálum.

Ég vil ítreka að aldrei hefur verið um niðurskurð að ræða til Háskólans á Akureyri og það er afskaplega mikilvægt að við hlúum vel að þessari merkilegu og mikilvægu menntastofnun. Ég er innilega sammála hv. þingmanni og ég vona öllum þingheimi um það að héðan heyrist samhljómur í þá veru að við viljum hlúa að Háskólanum á Akureyri. Það er hins vegar vert að vekja athygli á því að á árunum 2000–2005 var ársnemendaaukning í Háskólanum á Akureyri 123% meðan meðaltalið á fjárlögum á sama tíma var 60%. Það gefur skýrt til kynna að Háskólinn á Akureyri hefur notið velvildar. Það sama má segja um framlög á föstu verðlagi. Þau jukust um 114% á þessu sama tímabili en jukust að meðaltali um 52% til annarra háskóla. Það er því alveg skýrt að velviljinn er mikill héðan af hinu háa Alþingi og úr ráðuneytinu. Við höfum t.d. farið nokkuð óhefðbundnar leiðir til að mæta fjárframlögum skólans. Það má gagnrýna það að við seldum Glerárgötuna og settum framlög fyrir fasteignir eða söluandvirði fasteigna beint inn í rekstur háskólans, en það var að sjálfsögðu gert með það að markmiði að styrkja og efla Háskólann á Akureyri því að hann er þýðingarmikill.

Ég vil undirstrika að við erum að vinna að lausn fyrir Háskólann á Akureyri. En ég vil jafnframt undirstrika að það þýðir ekki að fara út í einhverja plástrameðferð og segja: Nú vantar bara einhverjar 50 millj. svo næst 100 millj. Við erum sameiginlega að vinna að þessu verkefni með háskólarektor og háskólayfirvöldum til að finna lausn til frambúðar þannig að áframhald verði á uppbyggingu Háskólans á Akureyri. Ég sýni fjárhagsvanda Háskólans á Akureyri fyllsta skilning og þá sérstaklega því sem tengist og varðar rannsóknarhúsið. Það er mál sem ég hef margítrekað sagt að við þurfum að fara gaumgæfilega yfir og hafa skilning á.