132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Fjárhagsvandi Háskólans á Akureyri.

[10:50]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er hreyft mikilvægu máli og eins og fram hefur komið ekki í fyrsta sinn af hálfu okkar þingmanna Samfylkingarinnar. Við höfum í allan vetur og sl. ár verið að benda á þann vanda sem stefnir í í Háskólanum á Akureyri og sérstaklega nú í haust. Við lögðum á það sérstaka áherslu ásamt öðrum stjórnarandstöðuþingmönnum að 100 millj. kr. fjárveiting til Háskólans á Akureyri þyrfti að koma til í fjárlögum þessa árs. Það var sú tala sem við lögðum til í breytingartillögu við fjárlagagerð og talan er ekki úr lausu lofti gripin heldur hefur rektor Háskólans á Akureyri sagt að það þurfi allt að 100 millj. til að Háskólinn á Akureyri nái endum saman.

Hv. þingmenn Birkir Jón Jónsson og fleiri, m.a. hv. þm. Halldór Blöndal, sem nú sýna þessu máli áhuga höfðu gullið tækifæri til að sýna það í verki við gerð síðustu fjárlaga að þeir styddu Háskólann á Akureyri og uppbyggingu hans með því að ganga í það með okkur í stjórnarandstöðunni að samþykkja þessa breytingartillögu við fjárlögin upp á 100 millj. kr., upphæðina sem skólinn þarf til að ná endum saman.

Virðulegi forseti. Sú sprenging í nemendafjölgun sem hefur orðið í Háskólanum á Akureyri er mikið fagnaðarefni og fjölgunin umfram þá meðalfjölgun sem hefur orðið í öðrum skólum eru mjög góðar fregnir. Og við vitum að skipt eftir landsbyggð og höfuðborgarsvæði, eins og fram kom í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn Önnu Kristínar Gunnarsdóttur um menntunarstig þjóðarinnar, þá er menntunarstig á landsbyggðinni lægra. Þar þarf því sérstakt átak og þar tel ég að Háskólinn á Akureyri gegni lykilhlutverki til framtíðar og það verður að hlúa að honum sem slíkum.