132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Skólamáltíðir.

[11:04]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það má segja að núverandi og síðustu ríkisstjórnir hafi eðlilega verið leiðandi í lagagerð og lagasetningu í því lagaumhverfi sem nú er í gildi. Það hefur mikil þróun átt sér stað á umhverfi skóla á öllum stigum og í samræmi við samstarfssamning Kennarasambands Íslands og menntamálaráðherra stendur fyrir dyrum núna að endurskoða öll lögin í skólakerfinu, þ.e.. leik-, grunn- og framhaldsskólum, og umræðan um skólamáltíðirnar mun að öllum líkindum koma upp í þeirri vinnu og þess vegna fagna ég þessari umræðu.

Í núgildandi löggjöf um leikskóla og grunnskóla er stefnan skýr. Í leikskóla skal m.a. vera meginmarkmið að veita börnum hollt uppeldisumhverfi, efla alhliða þroska barna í samræmi við eðli og þarfir og leitast við að hlúa að þeim andlega og líkamlega. Í grunnskóla skal leitast við að haga störfum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins. Að auki er í 4. gr. laga um grunnskóla kveðið á um að nemendur eigi kost á málsverði á skólatíma. Það eru ekki nein sérstök áform um að skýra þessi ákvæði nánar hvað varðar gjaldfrelsi, enda er rekstur leikskóla og grunnskóla á forræði sveitarfélaganna og þeirra er að ákveða hvernig haga beri þjónustu við börn og foreldra varðandi skólamáltíðir eða aðra þætti í þjónustu skóla og við sáum það m.a. í Kastljósinu í gær að sveitarfélögin nálgast þetta viðfangsefni mjög misjafnlega.

Umræðan undanfarið um skólamáltíðir í grunnskólum Reykjavíkur hefur leitt í ljós að aðeins 70% barna velja að kaupa mat í mötuneytum skólanna. Umræða hefur því vaknað hvort þau börn sem ekki velja að kaupa mat í skólunum geri það vegna gjalda sem tekin eru fyrir matinn. Ég vil geta þess að Stefán Jón Hafstein, formaður menntaráðs Reykjavíkurborgar, segir að hann fái þær upplýsingar í grunnskólum borgarinnar að það sé ekki efnahagur fólks sem geri það að verkum að börn nýti sér ekki skólamáltíðir í skólum. Hann benti m.a. á í þessari umræðu að yngri börn noti skólamáltíðirnar miklu frekar en unglingarnir. Þau hafi alist upp við það en þau sem eldri eru hafi ekki lært að tileinka sér að fá að borða í skólanum, auk þess sem ýmislegt annað komi til, eins og sérviska, matarofnæmi o.fl. Þegar viðtalið við Stefán Jón er lesið kemur í ljós að hlutfallið er dálítið misjafnt eftir skólum í Reykjavík og að honum sýnist að eftir því sem skólar hafi lengur boðið upp á þjónustuna sé hlutfallið mun betra. Til dæmis eru 95% nemenda í Fossvogsskóla í mataráskrift en sá skóli er frá 1. bekk upp í 7. bekk. Þetta tel ég vera fróðlegar upplýsingar frá formanni menntamálaráðs Reykjavíkurborgar. En þarna eru einnig vísbendingar sem gefa sterklega til kynna að þegar börn eldast sé sjálfstæði þeirra farið að hafa meiri áhrif á val á málsverði. Þetta á svo líklega enn meira við ef við lítum til framhaldsskólans.

Ég tel, frú forseti, að mikilvægasti þátturinn í þessari umræðu snúi að hollustu og gæðum skólamáltíða. Hollustan á að vera leiðarljósið þegar ákveða skal mataræði í skólum. Mikil vakning hefur orðið um bætta hollustu í mataræði hjá börnum. Grunnskólarnir hafa tekið verulega á í þessum málum og komin eru mötuneyti þar sem passað er upp á að börnin fái hollan mat. Margir leikskólar hafa jafnvel tekið upp á að bjóða aðeins upp á lífrænt ræktaðan mat.

Í framhaldsskólunum er skipulag matarmála með ýmsum hætti. Það eru ekki til nein sérstök lagaákvæði um útfærsluna, sem er alfarið í höndum skólanna sjálfra og án afskipta ráðuneytisins. Flestir skólar bjóða upp á mötuneyti sem nemendur hafa val um að kaupa mat í. Aðrir skólar bjóða upp á einhvers konar matsölu eða svokallaðar sjoppur. Hins vegar liggur ekki fyrir heildaryfirlit um stöðu þessara mála en full ástæða er til að kanna hver staðan er í grunnskólum og framhaldsskólum, og tek ég undir með hv. þingmanni hvað það varðar, til að fá yfirlit yfir hvers konar matur er á boðstólum þar fyrir nemendur og hvernig þeir síðan nýta sér það framboð skólanna, því að það er með afar misjöfnum hætti og liggur við eins misjöfnum hætti og einstaklingarnir eru margir.

Sem menntamálaráðherra hef ég ekki í hyggju að beita mér fyrir því að kostnaður við mat í framhaldsskólum verði niðurgreiddur. Það gæti til að mynda skapað mikla samkeppnisstöðu við fyrirtæki sem bjóða úrval af mat fyrir nemendur, sem hafa mjög ólíkan smekk. Sú stefna er við lýði að framhaldsskólarnir séu sem sjálfstæðastir, forsvarsmenn framhaldsskólanna hafa lagt ríka áherslu á það, og í þessum málum líka, að ég tel. Það er forráðamanna skólanna, í samvinnu við nemendafélögin og foreldrana, að taka sjálfstæða ákvörðun um hvernig skóla þeir vilji móta innan sinna raða þannig að það verði ekki miðstýrð tilskipun úr ráðuneytinu um hvað má og hvað má ekki.