132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Skólamáltíðir.

[11:16]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Þetta er afar þörf og mikilvæg umræða sem hér fer fram í þinginu um skólamáltíðir. Það var ánægjulegt þegar Svandís Svavarsdóttir, sem verður vonandi næsti borgarstjóri Reykvíkinga, kom fram með hugmyndir um ókeypis skólamáltíðir. Þetta er eitt af grundvallaratriðunum í skólastefnu okkar og ásamt gjaldfrjálsum leikskóla er þetta eitt af grundvallaratriðum í stefnuskrá Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Hv. þm. Þuríður Backman fór ágætlega yfir þær upplýsingar sem komu fram í Kastljósinu í gærkvöldi um þann kostnað sem fjölskyldur bera, ekki aðeins af skólamáltíðunum, heldur einnig af leikskólunum. Skólastjóri Fellaskóla er einn þeirra sem hafa sagt að gera megi ráð fyrir að efnaleysi sé ástæðan fyrir því að margar fjölskyldur láti ekki börn sín taka þátt í skólamáltíðum.

Ég þekki sjálfur fjölskyldur sem eru svona staddar. Auk þess eru dæmi um að börnum sé skipt í skólunum, að þau sem eru með nesti að heiman sitji annars staðar en þau sem borða heitan mat í skólanum. Það er óskiljanlegt að þetta þurfi að vera svona en með ókeypis skólamáltíðum getum við útrýmt slíku. Auðvitað á það að vera hlutverk ríkisins að hjálpa sveitarfélögunum til að þetta geti komist í framkvæmd. Ég vil einnig minna á að Jón Bjarnason, hv. þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hefur réttilega bent á að farið er að flytja mat yfir hálft landið sem síðan er hitaður upp í mötuneytum skólanna, vegna þess að verið er að einkavæða skólamötuneytin. Verið er að hagræða og spara og því eru stórfyrirtæki að útbúa máltíðir sem við getum nú ímyndað okkur að eru ekki eins hollar (Forseti hringir.) og góðar og þær ættu að vera. En það á að vera höfuðkrafan, hollar, góðar og ókeypis (Forseti hringir.) máltíðir.

(Forseti (SP): Forseti biður hv. þingmenn um að virða ræðutíma hér samkvæmt þingsköpum.)