132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Skólamáltíðir.

[11:18]
Hlusta

Sigurrós Þorgrímsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Til umræðu eru skólamáltíðir og fagna ég því. Þegar grunnskólarnir voru fluttir til sveitarfélaganna árið 1996 var í kjölfarið farið að einsetja þá. Samhliða einsetningu skólanna urðu töluverðar breytingar hjá nemendum, kennurum og öðru starfsliði. Nemendur eru núna í skólanum frá klukkan átta á morgnana og til klukkan tvö til þrjú á daginn eða lengur og því er mjög mikilvægt að þau fái hollan og næringarríkan mat.

Í Morgunblaðinu í byrjun febrúar sl. var sagt frá því á forsíðu að þriðjungur grunnskólanema í Reykjavík fengju ekki heitan mat í hádeginu. Í því sveitarfélagi sem ég þekki best til var strax samhliða einsetningunni farið að bjóða yngri börnum mat í hádeginu. Sú þjónusta mæltist mjög vel fyrir og nú er öllum grunnskólanemendum, leikskólabörnum og jafnvel nemendum í Menntaskólanum í Kópavogi boðið upp á heitar máltíðir í hádeginu og veit ég til þess að svo er hjá mörgum öðrum sveitarfélögum. Reynt er að halda kostnaði foreldra í algjöru lágmarki svo allir geti notið þessarar þjónustu og keypt skólamáltíðir fyrir börn sín, en hver máltíð kostar um 230 kr. Hver skóli birtir matseðil á netinu þar sem jafnframt er hægt að panta mat og greiða fyrir hann. Í öllum skólum er kappkostað við að bjóða upp á hollan og næringarríkan mat, flesta daga er boðið upp á ávexti í eftirrétt. Mjög margir foreldrar yngstu grunnskólanema nýta sér þessa þjónustu og borða langflestir yngri nema í Kópavogi í mötuneyti skólanna en aftur á móti mun færri nemendur í unglingadeildum. Sveitarsjóður stendur undir öllum stofnkostnaði og greiðir laun starfsmanna í eldhúsi. Upphaflega var stefnt að því að foreldrar greiddu fyrir hráefnið en í mörgum tilfellum er maturinn einnig niðurgreiddur. Ég tel mjög mikilvægt að þetta sé eflt og hugað sé að þessu í framtíðinni og við gerum það að skyldu að börnin reyni að borða í skólum.