132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Skólamáltíðir.

[11:23]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Staðan hvað varðar skólamáltíðir er almennt sæmilega góð að mínu mati. Það hefur breyst mjög til batnaðar og ég tengi það því að grunnskólinn færðist yfir til sveitarfélaganna og þau hafa sýnt vissulega metnað í að bæta skólamáltíðir. Við heyrðum hvað hv. þm. Eygló Harðardóttir sagði, þegar hún var lítil þá var maturinn ekki mjög hollur sem krakkarnir voru að borða í skólanum. Að mínu mati hefur þetta batnað. Það borða ekki öll börn skólamáltíðir í dag. Yngstu börnin eru duglegust að nýta sér þjónustuna en síður þau sem eldri eru og það er sérstakt rannsóknarefni. Samkvæmt upplýsingum Heimilis og skóla kostar hver máltíð frá 185–333 kr. Það er mjög vandséð hvernig heimilin sjálf gætu boðið upp á ódýrari mat. Maturinn er nú þegar niðurgreiddur að verulegu leyti hjá langflestum.

Hins vegar er það þróunin sem maður veltir fyrir sér. Það er að aukast að börn borði í skólum en er maturinn nógu hollur? Maður hefur vissar efasemdir um það. Sums staðar er boðið upp á mjög hollan mat og góðan, en manni er sagt að annars staðar sé hann síður hollur. Það sé mikið um svokallaða nagga, feitan mat o.s.frv. Fyrir stuttu voru þættir í sjónvarpinu þar sem sýnt var þegar Jamie Oliver, súperkokkur frá Bretlandi, fór í skóla og aðstoðaði bresk stjórnvöld við að bæta mataræðið í skólunum. Þar kom í ljós að verið var að bjóða upp á í skólamötuneytum þjappaða fitu með beinamjöli og ég veit ekki hvað. Þetta var ekki mjög glæsilegur matur. Það var mikið átak að breyta þessu en það kom í ljós að þar sem hægt var að snúa af þessari þróun þar batnaði allt skólastarf. Lyfjagjöf var minni, færri sjúkdómar og börnin voru rólegri o.s.frv. Það er því eftir miklu að slægjast. Ég styð það heils hugar að sveitarfélögin sýni áfram metnað í þessum efnum og reyni að bæta sig í skólamáltíðum. En þetta er verkefni sveitarfélaganna.