132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Samstarf Vestur-Norðurlanda um markmið í fiskveiðimálum.

297. mál
[11:40]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni ágæt tillaga og í rauninni löngu tímabær. Ég átti sjálfur sæti í vestnorræna ráðinu þegar þessi tillaga var unnin og þar var hún rædd fram og til baka á fundum. Þar kom berlega í ljós mikil þörf á því að þessi þrjú lönd, þ.e. Ísland, Grænland og Færeyjar, reyndu að stilla saman strengi sína í fiskveiðimálum gegn þessu stórveldi ef svo má segja, þ.e. Evrópusambandinu.

Ef við lítum á Evrópusambandið og síðan þessi þrjú lönd og legu þeirra í Norður-Atlantshafi sjáum við að þar fara saman hagsmunir umræddra þriggja landa en líka miklir hagsmunir Evrópusambandsins því Evrópusambandið er mjög víða með fiskveiðiheimildir. Það er með umtalsverðar fiskveiðiheimildir til að mynda við Grænland og greiðir grænlenskum stjórnvöldum háar fjárhæðir árlega fyrir þær. Það hefur stundum verið sagt að þetta sé pappírsfiskur og kannski lítið á bak við þetta, lítill afli og annað þess háttar. En samt sem áður eru þarna umtalsverðir hagsmunir fyrir Evrópusambandið og að sjálfsögðu líka fyrir Grænlendinga sem fá verulegar fjárhæðir frá Evrópusambandinu fyrir það að framselja þennan nýtingar- eða veiðirétt.

Við Færeyjar eru líka miklir hagsmunir fyrir Evrópusambandið. Evrópusambandið nýtir til að mynda einn mikilvægasta nytjastofn Færeyinga, sem er kolmunninn. Við getum líka talað um norsk-íslenska síldarstofninn og við getum talað um makríl í þessu sambandi. Ef við lítum síðan til Íslands þá nýtir Evrópusambandið flökkustofna sem tilheyra okkur og öðrum þjóðum við Norður-Atlantshaf eins og til að mynda síldina, sem ég nefndi hér áðan, og kolmunnann. Þarna er Evrópusambandið með aflahlutdeildir. Evrópusambandið er líka með aflahlutdeildir í bolfiskstofnum hér við Ísland og skip frá sambandinu hafa nýtt þessar heimildir nokkuð vel eins og fram kom í svari við fyrirspurn sem ég sendi hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrr í vetur.

Hér er stundum en þó ekki alltaf um að ræða gagnkvæmar veiðiheimildir og mjög flókið samspil. Flóknar samningaviðræður eiga sér stað á hverju ári og því er ekki nema sjálfsagt og eðlilegt að þessi þrjú lönd, þ.e. Ísland, Færeyjar og Grænland, reyni að stilla saman strengi sína og koma þá meira fram sem ein heild í samskiptum sínum við Evrópusambandið.

Við munum sjá það í nánustu framtíð að þessir hagsmunir eiga mjög líklega eftir að aukast verulega. Hvers vegna segi ég það? Jú, ég segi það vegna þess að nú eru að verða ýmsar breytingar í umhverfi hafsins og ýmsar breytingar varðandi þróun fiskstofna. Margt bendir til þess að þorskurinn sé til að mynda að koma aftur til Grænlands samfara hækkandi hitastigi sjávar og það mun að sjálfsögðu leiða til þess að Evrópusambandið mun reyna að leita leiða til þess að fá auknar veiðiheimildir þar við land.

Norsk-íslenski síldarstofninn er í mjög örum vexti. Stærsti árgangur sem menn hafa nokkurn tíma fundið, 2002-árgangurinn, er núna að bætast inn í veiðina og við sjáum það nú þegar að mjög mikið er af síld við Noreg. Í vetur gerðist það sem ekki hefur gerst áður að norsk-íslenski síldarstofninn fór ekki inn á sínar hefðbundnu vetrarstöðvar í fjörðunum við Lófót. Sennileg skýring á því er sú að stofninn sé orðinn það stór að ekki sé pláss fyrir hann lengur. Síldin hefur frekar haft vetrarstöðvar á hafi úti, eins og hún gerði á gullaldarárunum svokölluðu, og nú er þessi mikla síldarmergð eftir örfáar vikur að leggja af stað í leit að næringu á hafsvæðinu milli Íslands og Noregs, vonandi hér norður af Íslandi. Ég hygg því að mjög miklar líkur séu á því að síldin sé að taka upp sitt gamla göngumynstur og að hún verði að verulegum hluta í okkar lögsögu innan örfárra ára.

Kolmunninn virðist hafa staðið af sér miklar veiðar á undanförnum árum og það er enginn vafi á því að sá stofn mun verða verðmætari í nánustu framtíð. Það er margt sem bendir til þess að menn muni draga úr veiðum á honum til bræðslu og fara að nýta hann í auknum mæli til manneldis til að vinna úr honum meiri verðmæti og ég er sannfærður um að þar liggja miklir hagsmunir þegar til lengri tíma er litið. Makrílstofn í Norðursjó er í góðu lagi og það er margt sem bendir til þess að hann sé að færast norður á bóginn. Það var vart við makríl í íslenskri lögsögu á sl. sumri. Ég varð m.a. þeirrar gæfu aðnjótandi sem háseti um borð í síldveiðiskipi að við urðum varir við álitlegar makríltorfur í íslensku landhelginni og ég er sannfærður um að makríllinn er að koma aftur inn í lögsögu okkar. Það mun sennilega leiða til þess að við þurfum að semja um einhvers konar aflahlutdeild t.d. við Evrópusambandið en makrílstofninn er flökkustofn eins og síldin, og þar sem síldin og kolmunninn eru að hluta til í lögsögum Evrópusambandsins þarf að semja um slíkt.

Svo er annað sem mig langar til að benda á og það eru fiskveiðistjórnarmálin sem við höfum aðeins minnst á í þessari þingsályktunartillögu. Ég hygg að þessar þrjár þjóðir, Ísland, Grænland og Færeyjar hafi margt fram að færa varðandi fiskveiðistjórn og þá kannski einkum og sér í lagi Færeyingar. Fiskveiðistefna Evrópusambandsins hefur gengið mjög illa, mjög brösuglega og þar eru menn nú að leita logandi ljósi að nýjum aðferðum til að stjórna nýtingu fiskstofna. Ég get til að mynda upplýst það að hv. þm. Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins er einmitt núna staddur í Skotlandi til að hitta þar skoska þingmenn til að segja enn frá reynslu Íslendinga af kvótakerfinu. Skotar hafa verið að skoða Ísland. Þeir hafa líka verið að skoða reynsluna við Færeyjar. Breski íhaldsflokkurinn fór með það á stefnuskrá sinni í þingkosningar í Bretlandi á síðasta ári að það yrði breytt um fiskveiðistjórnarkerfi við Bretland og tekið yrði upp sóknarmarkskerfi svipað því og Færeyingar hafa verið að nota. Því það er reynslan, virðulegi forseti, að fiskveiðistefna Evrópusambandsins hefur alls ekki skilað neinum árangri. Fiskstofnar eru mjög illa farnir hjá Evrópusambandinu og þetta hefur leitt af sér mjög sársaukafullar aðgerðir þar sem skip hafa verið send í brotajárn, sjómenn hafa misst atvinnuna og fiskveiðisamfélög víða í Evrópusambandinu hafa nánast misst fótanna. Þetta mun svo enn og aftur og leiða til þess að Evrópusambandið lítur nú vonaraugum til ríkra fiskimiða bæði í Barentshafi en hugsanlega líka við Ísland, Færeyjar og að sjálfsögðu við Grænland þannig að það er kannski ekki seinna vænna að þessar þrjár þjóðir sem ráða yfir svo miklum auðlindum í hafinu og ráða yfir svo stórum hafsvæðum, réttilega reyni að stilla saman strengi sína í samskiptum sínum við Evrópusambandið í náinni framtíð því það er alveg ljóst að hvorki Ísland, Færeyjar né Grænland munu verða aðildarþjóðir að Evrópusambandinu.