132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Samstarf Vestur-Norðurlanda um baráttu fyrir sjálfbærri nýtingu náttúruauðæfa og umhverfisvernd.

543. mál
[12:12]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóri Blöndal fyrir flutning þessara mála sem hann hefur nú talað fyrir í kippu og lýsi yfir miklum stuðningi við þau orð sem hv. þingmaður hefur látið falla um mikilvægi samstarfs Vestur-Norðurlanda á öllum þeim sviðum sem um ræðir. Í þessu sambandi kemur upp í hugann og upp í hendurnar líka skýrsla ein mikil, sem gefin var út árið 2001, um sjálfbæra þróun á Norðurlöndum. Skýrsla þessi er nokkur að vöxtum og í henni er farið vítt yfir sviðið um það á hvern hátt norrænar ríkisstjórnir ákváðu að taka saman höndum um það stóra verkefni okkar að tryggja sjálfbæra þróun til framtíðar á Norðurlöndunum. Þar með eru auðvitað Vestur-Norðurlönd meðtalin.

Þetta er afar metnaðarfullt verkefni og ítarleg skýrsla sem mér skilst að nú sé búið að gera upp, þ.e. að komin er eins konar úrvinnsluskýrsla um það hvernig til hefur tekist á árabilinu 2001–2004. Stefnan sjálf á hins vegar að gilda til 2020. Ég geri því ráð fyrir að þetta sé stórt verkefni sem norræna ráðherranefndin hefur á sínu forræði sem áfram verði lögð mikil vinna í. Ég tel einboðið að ríkisstjórn Íslands fylgist vel með þeirri þróun sem á sér stað í þessari stefnumörkun og ekki bara þróuninni í stefnumörkuninni heldur meti íslenska ríkisstjórnin líka störf sín á þeim skala sem gefinn er upp í þessari stefnu ríkisstjórna Norðurlandanna. Við erum aðilar að þessu samstarfi og höfum þar af leiðandi skuldbindingar sem við þurfum að uppfylla.

Mér finnst oft vilja brenna við, og það gildir um þau mál sem hv. þm. Halldór Blöndal hefur talað fyrir, að hér séu afar fögur orð á blaði og mjög göfug markmið sem allir geta svo auðveldlega verið sammála um. En efndirnar eru ekki alltaf í takt við það sem markmiðin, sem við höfum undirgengist, segja til um. Þar vil ég senda hæstv. ríkisstjórn Íslands tóninn því að mér finnst ríkisstjórnin þurfa að lesa þessa pappíra mun betur og gera annað og meira en að skrifa undir þá og segja að hún sé aðili að stefnunni og taka jákvætt á málum í orði kveðnu, t.d. af því að málið sem síðast var talað fyrir varðar baráttuna fyrir sjálfbærri nýtingu náttúruauðæfa, umhverfisvernd og notkun umhverfisvænna orkulinda, en þar segir, eins og hv. þingmaður las upp úr greinargerð með tillögunni, með leyfi forseta:

„Vestur-Norðurlönd eru einstakt svæði í heiminum sem getur haft forustuhlutverki að gegna í sjálfbærri auðlindanýtingu, verndun hafsvæða og nýtingu umhverfisvænna orkulinda.“

Sömuleiðis var hér tillaga áðan um eflingu samstarfs vestnorrænu landanna í orkumálum almennt. Nú vil ég beina því til hæstv. ríkisstjórnar, svo það fylgi þessum málum inn í arma ríkisstjórnarinnar, að gá að sér varðandi nýtingu auðlindanna okkar því sjálfbær nýting á orkuauðlindum hefur innihald og er verulega gildishlaðið hugtak og íslenska ríkisstjórnin fer ekki með þeirri varkárni og þeirri varúð sem stefnan um sjálfbær Norðurlönd fyrirskrifar í orkumálum og auðlindanýtingarmálum. Ég held að menn þurfi að taka það til verulegrar skoðunar að hugtakið sjálfbær þróun er ekki skilgreint í lagatexta á Íslandi. Þetta þurfum við að bæta svo ríkisstjórnin átti sig á því hver forskriftin er og hvað það er sem má og ekki má. Í mínum huga, eins og ég les stefnuna um sjálfbær Norðurlönd, er sjálfbær nýting orkuauðlindanna þá og því aðeins sjálfbær að hún fórni ekki öðrum náttúruverðmætum, a.m.k. ekki á þeim skala sem við erum að gera í þeim virkjunaráformum sem við erum með hér til staðar.

Sömu sögu má segja varðandi nýjustu rannsóknir sem koma núna til okkar frá vísindamönnum um aurframburð jökulvatna til sjávar. Það er hluti af ákveðnu sjálfbæru ferli, þ.e. því hvernig sjórinn virkar sem svelgur á koltvísýring. Ákveðinn hluti af efnum sem berast fram með aur jökulvatna okkar er verulega þýðingarmikill til að tryggja loftgæði í lofthjúpi jarðar. Nú eru að koma niðurstöður vísindamanna varðandi þessi mál. Þar með er það ekki orðið sjálfbært að virkja jökulvötnin á þeim nótum sem við erum að gera með Jökulsá á Dal og Jökulsá í Fljótsdal í dag. Menn verða því að fara að skoða verkin sín á þeim mælikvarða sem sjálfbær þróun fyrirskrifar okkur.

Ég tek undir nánast allt sem hér stendur, kannski ekki alveg allt varðandi áhersluna á veiðar hvala en ég ætla að láta það liggja á milli hluta hér, nánast allt sem stendur í þessum greinargerðum. Ég fagna því af öllu hjarta að þessi mál skuli vera komin fram en ég brýni þingheim og hæstv. ríkisstjórn að láta þetta ekki verða orðin tóm. Við skulum sjá til þess, standa saman um það, að hér verði verulega tekið til hendinni. Það verði tryggt að markmiðin sem við setjum okkur í sjálfbærri þróun verði tímasett og mælanleg og menn viti hvað hlutirnir þýði. Í því sambandi verðum við að fara að skilgreina hugtakið „sjálfbær þróun“ í lagatexta og ég treysti því að við getum staðið saman um það sem fyrst.