132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Einkamálalög.

82. mál
[12:26]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á einkamálalögum, nr. 91/1991. Ákvæðið varðar gjafsókn. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson og hv. þm. Sigurjón Þórðarson en þetta mál á rætur að rekja til umfjöllunar um lagabreytingu sem gerð var á síðasta þingi á einkamálalögunum. Þar var um að ræða 190. mál 131. löggjafarþings og breytingarnar á 126. gr. laganna urðu uppspretta dálítillar deilu innan alþjóðanefndarinnar. Við deildum við hæstv. dómsmálaráðherra sem flutti þetta mál í þinginu en komum ekki þingheimi í skilning um það að okkar sjónarmið væru sanngirnissjónarmið sem þyrfti að taka til gaumgæfilegrar skoðunar. Við sáum okkur á endanum knúin til þess að flytja málið í sjálfstæðu frumvarpi sem ég mæli fyrir í fyrsta sinn, hæstv. forseti.

Breytingin varðar 1. mgr. 126. gr. laganna. Það var sú grein sem olli mestum deilum í fyrra og með þessari breytingu eru lagðar til breytingar á reglum um skilyrði fyrir gjafsókn en meginreglurnar um gjafsókn er að finna í 20. kafla laganna um meðferð einkamála. Um skilyrði gjafsóknar er fjallað í þessari 126. gr. og þar er kveðið á um að einstaklingi megi veita gjafsókn ef fjárhag hans er þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í málinu yrði honum fyrirsjáanlega ofviða enda sé nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarna og eðlilegt megi teljast að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé.

Með þessu frumvarpi er lögð til almenn heimild til gjafsóknar á grundvelli þess að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjenda.

Þar koma einkum til álitamál þar sem fjallað er um mikilvæga hagsmuni almennings eða mál sem hefur verulega þýðingu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjenda en sambærileg heimild var áður í lögunum en var felld niður með lögum nr. 7/2005. 1. efnismgr. þessa frumvarps var sem sagt í lögum fram til þessa tíma fyrir ári síðan að hún var felld út en 2. efnismgr. þessarar 1. gr. frumvarpsins er hins vegar alveg samhljóða 2. málsl. 1. mgr. 126. gr. í gildandi lögum þannig að það er ekki verið að tala um neina breytingu þar á.

Nú er það svo, hæstv. forseti, að þau gjafsóknarmál sem felld eru niður, með þeirri breytingu að stafliður a var felldur út úr lögunum, bitna verst á því fólki sem telur sig eiga eitthvað sökótt við ríkið sjálft eða ráðherra ríkisstjórnarinnar. Við nefndum í ræðum okkar fyrir ári, sem dæmi um mál sem af þeim sökum fá ekki heimild til gjafsóknar lengur, mál á sviði umhverfisréttar. Það hefur borið á því í auknum mæli á síðustu árum að einstaklingar vilji höfða mál vegna þess að þeir telja að stjórnvöld séu að brjóta á almannahagsmunum varðandi umhverfismál. Þar sem náttúran á sér ekki sjálfstæða málsvara hér á Alþingi, nema þá helst í hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, teljum við verulega ábótavant réttarstöðu almennra borgara sem vilja gæta hagsmuna umhverfisins og náttúrunnar og hafa getað gert það hingað til með vísan til þess að a-liður 126. gr. einkamálalaganna hefur heimilað það að veita gjafsókn ef verulegir almannahagsmunir eru til staðar. Við sem aðhyllumst náttúruvernd og teljum að hér sé verið að ganga á hagsmuni náttúruverndar með stefnu ríkisstjórnarinnar, t.d. í virkjunarmálum, teljum afar nauðsynlegt að einstaklingar hafi þann lagalega möguleika að fá gjafsókn vegna svona mála en þurfi ekki að heyja mál á eigin kostnað því það vita allir hversu kostnaðarsamt það getur verið.

Ég fullyrti í fyrra og ég fullyrði það enn að ríkisstjórnin sé með þessari breytingu sem gerð var á þessum lögum í fyrra að koma sér undan málsóknum af því tagi sem borið hefur á í auknum mæli varðandi umhverfismál. Mér finnst það í hæsta máta óeðlilegt. Ég tel að ríkisstjórnin sé með þessu að skjóta sér undan ábyrgð og rýra rétt borgaranna, sem er þvert ofan í samninga sem við höfum verið að gerast aðilar að á undanförnum árum eins og t.d. Árósasamninginn. Samkvæmt Árósasamningnum ber stjórnvöldum skylda til þess að tryggja rétt borgaranna til að höfða mál eða gæta réttar umhverfisins og náttúrunnar telji fólk að gengið sé á rétt náttúrunnar — við sem höfum talað fyrir náttúruvernd í þinginu höfum skilgreint það að náttúran eigi sjálfstæðan rétt. Hún á sér fullt af málsvörum úti í samfélaginu og það má ekki loka þeim einu dyrum sem þessir málsvarar náttúrunnar og umhverfisverndar höfðu til að stilla stjórnvöldum upp við vegg og kalla þau fyrir dómstóla vegna þess að það hafi verið gengið á sjálfstæðan rétt náttúrunnar. En breyting Björns Bjarnasonar á þessum lögum frá því í fyrra gerir einmitt það. Hún lokar dyrunum og minnkar þar af leiðandi hinn sjálfstæða verndarrétt sem náttúran er talin eiga.

Ég tel verulega mikið réttlætismál hér á ferðinni, hæstv. forseti, og tel að það þurfi að skoða það mjög gaumgæfilega á hvern hátt við getum komið þessu aftur inn í lögin því að annað tel ég stangast á við alþjóðlega hagsmuni, hagsmuni sem koma fram og eru skilgreindir í samningum sem við höfum undirgengist og ég sé enga ástæðu til annars en við stöndum hér þannig að málum að við göngumst undir þær skyldur sem við í orði kveðnu tökum á herðar okkar.

Að þessari umræðu lokinni, herra forseti, óska ég eftir því að málinu verði vísað til hv. allsherjarnefndar og síðan til 2. umr.