132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

210. mál
[12:33]
Hlusta

Flm. (Drífa Hjartardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga á þskj. 210, 210. mál þingsins, um breytingu á lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986, með síðari breytingum. Flutningsmenn eru Drífa Hjartardóttir og Halldór Blöndal.

1. gr. orðist svo:

„Í stað orðanna „12 vikna innlausnarfresti“ í 1. málsl. 4. mgr. 59. gr. laganna, kemur: fjögurra vikna innlausnarfresti.“

Frumvarp þetta var áður flutt á síðasta löggjafarþingi (þskj. 557, mál nr. 423) af Einari K. Guðfinnssyni, sem nú er orðinn sjávarútvegsráðherra, en málið varð ekki útrætt á því þingi.

Með frumvarpinu er ætlunin að gera breytingar á reglum um meðferð óskilapenings, hrossa og nautgripa, sem samkvæmt gildandi lögum er heimilt að selja að kröfu hreppstjóra við nauðungarsölu með tólf vikna innlausnarfresti án þess að sérstakrar áskorunar sé þörf til eiganda.

Með gildistöku reglugerðar nr. 289/2005, um merkingu búfjár, er skylt að örmerkja eða frostmerkja hross en samkvæmt bráðabirgðaákvæði er ekki gerð krafa um að hross sem fædd eru fyrir 1. janúar 2003 séu merkt nema sérstakar markaðsaðstæður krefjist. Enn fremur er skylt að merkja alla nautgripi með plötumerki og samkvæmt ákvæði til bráðabirgða þarf ekki að merkja nautgripi sem fæddir eru fyrir 1. september 2003 fyrr en 1. janúar 2006. Þá hefur nokkuð verið gert sl. ár í að merkja eldri hross sérstaklega og hefur því tilvikum fækkað þar sem þurft hefur að selja óskilapening á uppboði.

Tólf vikna innlausnarfrestur fyrir eigandann er því ekki lengur nauðsynlegur og afar langur sé litið til hagsmuna þess er kaupir óskilapeninginn á uppboði og getur átt von á því í tólf vikur að eigandinn komi og nýti sér brigðarétt. Breytingin mun einnig virka hvetjandi á eigendur hrossa og nautgripa til að vera með fullnægjandi merkingar.

Hæstv. forseti. Að þessari umræðu lokinni óska ég eftir að málinu verði vísað til hv. landbúnaðarnefndar.