132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Hreyfing sem valkostur í heilbrigðiskerfinu.

220. mál
[12:51]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir flutning þessarar tillögu og taka undir efni hennar. SÍBS, eigandi Reykjalundar sem hér var vitnað til áðan, hefur látið þessi mál mjög til sín taka. Ég vil benda á að í SÍBS-blaðinu sem þingmenn fengu í haust, októberblaðinu, er ágæt grein um þetta efni sérstaklega. Þar að auki hefur verið ákveðið að ráðstefna sem haldin verður í haust verði helguð þessu málefni. Hún verður haldin í tengslum við SÍBS-þing í október.

Velmegunarsjúkdómar eða lífsstílssjúkdómar eru mikill vandi nútímafólks. Þeir eru m.a. meðhöndlaðir á Reykjalundi. Dæmi um þetta eru sykursýki 2, hár blóðþrýstingur, há blóðfita og offita. Það er svo mikið um þetta að það er farið með útbreiðslu þess eins og faraldur í heilbrigðiskerfi heimsins samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Í skýrslu frá þeim kemur fram að lífsstílssjúkdómar muni orsaka 70% allra dauðsfalla árið 2020 ef svo fer fram sem horfir. Lyfjanotkun mun aukast. Aðgerðum á sjúkrahúsum mun fjölga. Þess vegna hefur áherslan á hreyfingu sem meðferð aukist og er valkostur sem er tiltölulega nýr en á eftir að sanna sig eða ég hef trú á að svo verði. Eins og hérna hefur komið ágætlega fram hjá hv. flutningsmanni skrifa læknar upp á hreyfingarseðla í stað eða ásamt lyfseðlum sem fólk getur svo leyst út og fengið ráðgjöf annaðhvort á sérhæfðum stöðvum eða á annan hátt. Þarna er verið að leggja meiri ábyrgð á hvern einstakling og jafnframt gefa þeim tækifæri til að takast á við sjúkdómana á eigin forsendum. Þetta dregur úr lyfjanotkun og aðgerðum og ætti þegar til lengri tíma er litið að auka heilbrigði og draga úr heilbrigðiskostnaði.

Það er hlutverk lækna í Noregi að fræða sjúklinga um ágæti hreyfingar og rétt mataræði. Þannig ráðgjöf tekur yfirleitt lengri tíma en venjuleg læknisheimsókn og tekur gjaldskrá læknisins mið af því. Þetta fyrirkomulag er kallað grænn lyfseðill. Í því felst að læknirinn gerir samkomulag eða samning við sjúklinginn — þetta gerist ekki nema sjúklingurinn heimili það sjálfur að sjálfsögðu — um að hann hreyfi sig meira, borði hollari mat. Í Noregi gildir þetta fyrst og fremst fyrir háan blóðþrýsting og sykursýki 2, en þessi lyfseðill gildir ekki ef sjúklingurinn er á lyfjum fyrir. Þannig er það alla vega núna. Síðan er náttúrlega hreyfingin og að uppfylla þessi skilyrði í höndum sjúklingsins sjálfs.

Svíar tala um það sem þeir kalla „fysisk aktivitet på recept“. Verkefnið byrjaði á nokkrum stöðum í Svíþjóð en hefur svo breiðst út. Þeir setja það sem kalla mætti á íslensku hreyfitek samanber apótek þangað sem fólk fer með hreyfiseðlana og fær ráðgjöf. Framhaldið er síðan í höndum sjúklinganna.

Danir byggja á sænsku útfærslunni en leggja töluvert upp úr því að heimfæra hana upp á mismunandi aðstæður. Danir nota þetta á tvennan hátt. Fyrst er það það sem þeir kalla motion í håndkøb — fyrirgefið dönskuna — þar sem sjúklingur með hreyfiseðil frá lækni getur fengið ráðgjöf um hreyfingu án áframhaldandi eftirfylgni. Það er fyrri kosturinn. Sá seinni er motion på recept þar sem sjúklingur tekur þátt í skipulegri þjálfun í þrjá, fjóra mánuði áður en hann fer sjálfur út í samfélagið til að þjálfa sig. Eins og staðan er núna gildir þetta um sjúklinga með sykursýki 2 og háan blóðþrýsting eins og allt hið fyrra. Það er aðallega þetta sem verið er að fjalla um núna, enda eru þetta dæmigerðir lífsstílssjúkdómar. Meira er lagt upp úr eftirfylgni við sjúklingana í dönsku útfærslunni. Það er dýrara fyrir heilbrigðiskerfið en talið að brottfall úr þjálfun verði minna. Þar er talið að um 3.500 manns taki þátt í hreyfingu sem meðferð og mælingar sem gerðar hafa verið sýna fram á það að 70–80% þeirra eru enn að hreyfa sig eftir sex mánuði. Sá árangur getur ekki talist annað en góður.

Nefnd á vegum Félags íslenskra sjúkraþjálfara sem stofnuð var á haustmánuðum 2004 — þeir sem störfuðu í þeirri nefnd skrifuðu áðurnefnda grein í SÍBS-blaðinu — kynnti sér útfærslur á þessu sem ég hef greint að framan, en á íslensku hefur þetta verið kallað hreyfing sem meðferðarform. Hugmyndafræðin sem birtist í þessu passar við viðhorf sjúkraþjálfara um að auka vægi hreyfingar. Verkefni þessarar nefndar var að kanna hvernig þær þjóðir sem hafa útfært þessa hugmynd hafa farið að því og hvort hugmyndin sé góður kostur fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi. Niðurstaða nefndarinnar er sú að danska útfærslan virðist vera sú ákjósanlegasta en mikilvægt sé að aðlaga hana íslenskum aðstæðum. Læknar sjá um að kynna hugmyndina fyrir sjúklingum og velja þá sjúklinga sem þeir telja hafa gagn af þessari meðferðarnálgun og þeir sjá um ákveðnar mælingar, lyfjamál og eftirfylgni í allt að ár. Læknar gera þetta. En einnig getur þessi meðferð verið í höndum annarra heilbrigðisstarfsmanna svo sem sjúkraþjálfara eða hjúkrunarfræðinga. Tvær leiðir eru í boði þarna, annars vegar að æfa á eigin vegum en mæta svo þá í reglulegt mat hjá heilbrigðisstarfsmanni eða í öðru lagi að æfa undir eftirliti fagaðila, t.d. sjúkraþjálfara í þrjá til fjóra mánuði og eftir það finna hreyfingu við hæfi, t.d. sund, göngu, líkamsrækt eða annað sem á við og viðkomandi finnur sig í að framkvæma.

Þessi nefnd hefur einnig haft það hlutverk að kynna þessar hugmyndir hérlendis og kanna áhuga fagfólks og almennings á þessari aðferð. Áhugi á þessu virðist vera mikill víða. Síðan, eins og kom fram í greinargerð, hefur hópur nema í verkefnastjórnun við Háskóla Íslands gert úttekt á mögulegri útfærslu hér á landi sem hluta af námi sínu og skilað því til landlæknis.

Undirtektir við þetta hafa verið góðar. Ég hef mikla trú á að þessi aðferð geti verið svar við lífsháttum sem hafa heldur færst til verri vegar og sem betur fer njóta undirtektir við það vaxandi fylgis, þ.e. að menn finni sér hreyfingu sem meðferðar- og forvarnarform og finnast mörg dæmi þess í þjóðfélaginu núna að slíkt sé að gerast. Ég minni aftur á að SÍBS mun láta þetta mál til sín taka, mun standa fyrir ráðstefnu í haust sem ég vona að verði sem fjölsóttust og innlegg í þetta ágæta mál.