132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Landshlutaverkefni í skógrækt.

555. mál
[13:31]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um landshlutaverkefni í skógrækt á þskj. 809 sem er 555. mál Alþingis. Með frumvarpinu er ætlunin að sameina í ein lög þrenn sem nú gilda um landshlutaskógrækt, þ.e. lög um landshlutabundin skógræktarverkefni, nr. 56/1999, lög um Héraðsskóga, nr. 32/1991, og lög um Suðurlandsskóga, nr. 93/1997.

Í ákvæði I til bráðabirgða í núgildandi lögum um landshlutabundin skógræktarverkefni kemur fram að landbúnaðarráðherra skuli fjórum árum frá setningu laganna endurskoða ákvæði þeirra, auk ákvæða laga um Héraðsskóga og Suðurlandsskóga.

Ljóst er að nokkuð er komið fram yfir þann tíma sem átti að endurskoða lögin en það á sér eðlilegar skýringar. Frumvarpið hefur verið nokkuð lengi í vinnslu og leitað hefur verið lögfræðiálita og umsagna frá þeim aðilum sem málið helst varðar, m.a. barst þaðan álit Skógræktar ríkisins og forsvarsmanna verkefnanna á drögum ráðuneytisins að frumvarpinu.

Ég sé einnig ástæðu til að taka fram, þar sem að undanförnu hefur nokkuð verið rætt um sameiningu Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins, að þetta frumvarp er óháð þeirri umræðu. Hvort eða hvenær þær stofnanir verða sameinaðar breytir ekki nauðsyn þess að ákveðin lög gildi um stuðning ríkisins við landshlutaverkefni í skógrækt eins og verið hefur. Landshlutaverkefnin starfa óháð fyrrgreindum stofnunum í dag þótt náin samvinna sé með Skógrækt ríkisins og verkefnunum. Engin áform eru um að svo verði ekki áfram.

Reynslan af landshlutaverkefnum og framkvæmd laganna hefur verið mjög góð. Mikill áhugi er um allt land á verkefnunum, ekki aðeins meðal þátttakenda heldur einnig annarra, svo sem sveitarstjórna og almennings. Nú hafa verið gerðir um 760 samningar við skógræktarbændur og aðra landeigendur og rúmlega 100 jarðir eru á biðlista. Alls hafa verið gróðursettar um 40 milljónir plantna í um 18 þúsund hektara lands.

Hins vegar hefur reynslan sýnt að þörf er á að kveða skýrar á um ýmis atriði núgildandi laga. Þar má nefna ákvæði um endurgreiðslu skógræktarframlags, fyrningu þeirra og ákvæði, um þau tilvik er skógarbóndi hefur vanefnt samning, vilji skógarbóndi segja upp samningi eða skógræktarverkefnið sjálft losna undan samningi.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að endurgreiðslubyrði af tekjum skógarbænda falli niður. Í núgildandi lögum er þetta hlutfall 15–35% af söluverðmæti hvers rúmmetra en það er mismunandi eftir verkefnum. Sterk rök hafa verið færð fyrir því að ef skógrækt eigi að þróast og eflast sem ný atvinnugrein hér á landi megi endurgreiðslubyrðin ekki verða of há þar eð landeigendur verða að sjá sér hag í að fella trén og koma afurðunum á markað.

Einnig hefur verið bent á að þegar timburskógar verða felldir og afurðir settar á markað gefast margar leiðir fyrir stjórnvöld til að skattleggja atvinnugreinina á raunhæfan máta. Má benda á að endurgreiðsluhlutfallið er heldur ekki til staðar á Írlandi sem hóf sína miklu skógrækt fyrir um 80 árum. Hún er ein af auðlindum frænda okkar á Írlandi. Nauðsynlegt er að benda á að virðisauki skógræktar felst auk timburframleiðslu í mörgu öðru, svo sem bindingu kolefnis, fjölbreyttara náttúrufari, heftingu jarðvegseyðingar, uppgræðslu lands, að ógleymdu margháttuðu útivistargildi svo eitthvað sé nefnt. Um þetta er sérstaklega getið í 1. gr. frumvarpsins, um tilgang og markmið laganna. Greinin er að mestu efnislega samhljóða tilsvarandi greinum í núgildandi lögum og viðurkennt að markmið með skógrækt geti verið margvísleg og misjöfn og háð bæði aðstæðum og óskum landeigenda á hverjum stað.

Þá er sömuleiðis sett fram það markmið sem stefnt hefur verið að frá því að landshlutabundnu verkefnin hófu göngu sína, að stefnt skuli að ræktun skóga á a.m.k. 5% af flatarmáli láglendis neðan 400 metra línunnar á svæði hvers verkefnis. Samkvæmt núgildandi lögum eru starfandi sex landshlutabundin skógræktarverkefni. Þau eru Héraðsskógar, Suðurlandsskógar, Norðurlandsskógar, Skjólskógar á Vestfjörðum, Vesturlandsskógar og Austurlandsskógar.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að landshlutaverkefnin verði eftirleiðis fimm talsins og taki Héraðsskógar á Austurlandi við verkefnum Héraðsskóga og Austurlandsskóga með brottfalli laganna um Héraðsskóga. Með tilkomu Austurlandsskóga var Héraðsskógum falið að stýra verkefninu en fulltrúar skógarbænda á Austurlandi bættust við í stjórnina. Þótt framlög til Héraðsskóga og Austurlandsskóga hafi verið aðskilin er um sameiginlegan rekstur þeirra að ræða á skrifstofu, stjórnun og hvað mannafla varðar. Er þessum þáttum skipt hlutfallslega á verkefnin. Eðlilegt er talið að á Austurlandi starfi eitt skógræktarverkefni eins og í öðrum landshlutum.

Í frumvarpinu er stjórnsýsluleg staða verkefnanna skilgreind. Verkefnin heyra undir landbúnaðarráðherra en eru að öðru leyti sjálfstæðar stjórnsýslueiningar. Einnig kemur fram að framlög verkefnanna eru bundin við lögbýli. Með hliðsjón af því að eitt af markmiðum laganna er að treysta byggð og efla atvinnu þykir eðlilegt að binda verkefnin áfram við lögbýli. Þróunin á undanförnum fimm árum hefur verið á þá leið að fjölmörg ný lögbýli hafa verið stofnuð til sveita. Mörg þessara býla eru stofnuð til að hefja þar starfsemi í skógrækt. Með lögbýlisskilyrðinu þykir markmiðum laganna vel náð.

Í núgildandi lögum um landshlutabundin skógræktarverkefni er gert ráð fyrir að verkefnin fari að áætlun til 40 ára og verði henni skipt niður í 10 ára tímabil. Í frumvarpinu er þetta skýrt frekar og gert ráð fyrir endurskoðun áætlunarinnar á 10 ára fresti eða oftar. Breyting þessi er í takt við nútímavinnubrögð í skipulagsmálum og gerir verkefnunum kleift að aðlagast breyttum forsendum og nýjum áherslum sem fram kunna að koma. Í frumvarpinu eru einnig nýmæli sem ætlað er að tryggja að áætlanir landshlutabundnu skógræktarverkefnanna taki mið af þeim fjárveitingum sem Alþingi hefur áætlað til skógræktarverkefnanna til 10 ára í senn. Með þessu er einnig ætlunin að tryggja ákveðin fyrirsjáanleika í störfum verkefnanna.

Kveðið er á um að landbúnaðarráðherra leggi fram þingsályktunartillögu á Alþingi um fjárframlög til verkefnanna. Ákvörðun Alþingis ræður svo fjárveitingunum sem verkefnin taka mið af við áætlanagerð sína og framkvæmdir. Eðli verkefnanna og framkvæmdir í skógrækt kalla á langtímaáætlanir um fjárveitingar. Þær tryggja trúverðugleika og markvissara og skilvirkara starf. Vorið 2003 samþykkti Alþingi þingsályktun í anda þess sem hér er lagt til að verði lögboðið. Sú þingsályktun var til fimm ára og markaði tímamót hvað varðar alla áætlanagerð fyrir verkefnin.

Fimmta grein er að mestu samhljóða 7. gr. laga um Suðurlandsskóga. Gert er ráð fyrir því að stjórn hvers landshlutabundins verkefnis sé í höndum þriggja manna stjórnar sem skipuð verði til fjögurra ára í senn. Í núgildandi lögum um landshlutabundin skógræktarverkefni er gert ráð fyrir fjögurra manna stjórn. Breytingin er lögð til svo að auka megi hagkvæmni í rekstri verkefnanna og minnka yfirbyggingu þeirra. Með skipan stjórnarinnar er tryggt að tekið sé mið af sjónarmiðum skógarbænda og fagsjónarmiðum þeim sem Skógrækt ríkisins er ætlað að endurspegla. Ráðherra skipar síðan þriðja mann stjórnarinnar án tilnefningar.

Með þessari breytingu er ekki gert ráð fyrir aðkomu Skógræktarfélags Íslands að stjórn verkefnanna eins og var í lögum um landshlutabundin skógræktarverkefni og gilti fyrir Norðurlandsskóga, Vesturlandsskóga og Skjólskóga á Vestfjörðum. Þetta atriði hefur verið mikið skoðað og rætt. Rétt er að benda á að skógræktarfélögin eru frjáls félög og starfa ekki eftir lögum frá Alþingi. Þrátt fyrir mikið skógræktarstarf þeirra í áratugi verður ekki séð að nauðsyn sé á aðild þeirra að landshlutabundnu verkefnunum sem starfa á allt öðrum forsendum.

Á það hefur einnig verið lögð áhersla, að fækka eigi í stjórnum verkefnanna eins og hér er lagt til. Bent hefur verið á að ef vilji er til að fjölga í stjórnunum geti allt eins verið eðlilegt að sveitarfélögin, sem leggja mikið upp úr velgengni verkefnanna, eigi þar fulltrúa ekki síður en skógræktarfélög. Það nýmæli er í 5. gr. frumvarpsins að gert er ráð fyrir því að landbúnaðarráðherra setji stjórnum verkefnanna starfsreglur. Með setningu slíkra reglna verður leitast við að tryggja sem best samræmda framkvæmd hjá verkefnunum.

Þá eru sömuleiðis nýmæli í 6. gr. frumvarpsins um að samningar við þátttakendur skuli vera til 40 ára. Í núgildandi lögum eru ekki ákvæði um gildistíma samninga. Sú hefð hefur þó skapast að gera samninga til 10 ára með ákvæðum sem ná til allt að 40 ára. Með ákvæðinu um samningstíma eru tekin af öll tvímæli um gildistíma þeirra.

Í 7. gr. er nýmæli sem ætlað er að skýra réttarstöðu og uppgjör aðila skógræktarsamnings ef aðilar vilja losna undan samningi áður en gildistími hans rennur út. Í 1. mgr. er tilgreint hvernig skuli fara að vilji landeigandi losa land sitt í heild eða að hluta undan samningi áður en gildistími hans rennur út. Með þessu ákvæði verður til reiknuð „skuld“ eða endurgreiðslufjárhæð sem telst þá vera „skuld“ skógarbónda við viðkomandi landshlutaverkefni. Er hugsanlegt að slík reiknuð „skuld“ geti haft neikvæð áhrif á markaðsverð jarðar. Til að draga úr slíkum áhrifum er gert ráð fyrir að „skuldin“ fyrnist með tíma. Ákvæðið er skýrt frekar í greinargerð frumvarpsins.

Í núgildandi lög hefur hins vegar vantað skýr ákvæði um meðferð mála ef skógarbóndi vill hætta í verkefni. Í 2. mgr. greinarinnar er að finna ákvæði um það þegar verkefnisstjórn vill losna undan samningsskuldbindingum. Greinin kveður á um lágmarksmálsmeðferðarreglur ef svo ber undir.

Í 8. gr. er að finna nýmæli um rétt landshlutaverkefnis til að rifta samningum og endurheimta framlög hafi þátttakendur ekki staðið við skuldbindingar sínar. Örfá tilvik hafa komið upp þar sem samningsbundinn skógarbóndi hefur vanrækt skyldur sínar, einkum um að vernda skógræktarsvæði fyrir beit. Hætta er á slíku við eigendaskipti jarða ef nýr landeigandi er ekki eins áhugasamur um skógrækt og sá sem gerði samninginn. Engin ákvæði eru í núgildandi lögum sem taka á þessum málum og er staða verkefnanna veik gagnvart landeigendum sem ítrekað brjóta samning.

Um 9. gr. er það helst að segja að hún er samhljóða 5. gr núgildandi laga um landshlutabundin skógræktarverkefni, hluta 4. gr. laga um Suðurlandsskóga og hluta 4. gr. laga um Héraðsskóga. Kveðið er á um að framlög skuli nema allt að 97% af kostnaði, en það hlutfall er tilgreint í lögum um Héraðsskóga og notað af öllum verkefnunum. Greinin hefur því enga breytingu á rekstri verkefnanna í för með sér .

Hæstv. forseti. Liðin eru 15 ár síðan landshlutabundnu skógræktarverkefnin hófu göngu sína. Frá upphafi hafa þau notið stuðnings stjórnvalda og Alþingis. Þingmenn allra flokka hafa veitt þeim brautargengi og tryggt framlög til þeirra á fjárlögum. Það hefur ríkt samstaða um þessa atvinnuuppbyggingu og nýsköpun. Fyrir það ber að þakka.

Ég ítreka að með þessu frumvarpi er ætlunin að sameina núgildandi þrenn lög í ein og skýrari lög. Menn hafa talið nokkur atriði í núgildandi lögum fremur óskýr og því er mikilvægt að þetta mál fái brautargengi til að menn þekki reglurnar og lögin um verkefnin séu skýr.

Það er von mín að sú sátt sem ríkt hefur með landshlutabundnu skógræktarverkefnunum verði áfram og sátt náist um frumvarpið sem hér er lagt fram.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og landbúnaðarnefndar.