132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Landshlutaverkefni í skógrækt.

555. mál
[13:59]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði að næstum því hefur verið staðið við áætlanir landshlutabundnu skógræktarverkefnanna en ekki alveg og vantaði töluvert upp á þegar Héraðsskógaverkefnið er tekið sem heild. Það er mjög bagalegt fyrir þessa atvinnugrein sem byggir á útplöntun og þarf að hafa tryggt fjármagn til að geta staðið við ræktun eins og kallað er eftir.

Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningunni um skipulagsmálin, deiliskipulag og aðalskipulagsmál, þar sem þetta nær oft yfir fleiri en eitt sveitarfélag, og hvernig staðið er að samræmingu og samþættingu þessara stóru verkefna og skipulagsmála.