132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Landshlutaverkefni í skógrækt.

555. mál
[14:05]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var rétt hjá hæstv. ráðherra að ég fagnaði þeirri einföldun sem hér er boðuð. Ég vildi aðstoða hæstv. ráðherra við það að gera málið enn einfaldara en vera ekki með nafngiftir út og suður. Ég heyri hins vegar að málið er mun viðkvæmara gagnvart hæstv. ráðherra en ég hélt. Ég hélt að þetta væri ekki svo viðkvæmt sem heyra mátti frá hæstv. ráðherra. En ef það yrði til að tryggja það betur og setja meiri kraft í skógrækt á landinu að halda þessari nafngift þá geri ég ekki miklar athugasemdir við það.

Ég benti á að þetta er ekki í anda málhefðarinnar fyrir austan, að tala um Hérað og láta það ná um allt Austurland. Fljótsdalshérað er að sjálfsögðu, eins og hæstv. ráðherra sagði, afskaplega fallegt og nafnið einnig mjög fallegt. En það á bara við ákveðið svæði og hefðin er sú að það eigi við þetta ákveðna svæði. Ég held að hv. þm. Drífa Hjartardóttir, formaður landbúnaðarnefndar, verði að gefa sér smátíma í að skoða hvort ekki sé hægt að finna lausn á þessu máli þannig að við höldum í einfaldleikann. Hins vegar má ekki gleyma að forustumenn skógræktarinnar voru af Héraði og eðlilegt að halda því á lofti.