132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Landshlutaverkefni í skógrækt.

555. mál
[14:27]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. formanni landbúnaðarnefndar finnst umræðan um skógrækt vera mjög mikil í landinu. Það virðist þá vera að ég þurfi að játa það á mig að ég hafi ekki komist í þær upplýsingar sem ættu að liggja fyrir því að mig vantaði upplýsingar fyrir þessa umræðu sem ég taldi að ættu að liggja fyrir í þingskjölum, í skýrslum frá hæstv. ráðherra eða á heimasíðu landbúnaðarráðuneytisins. Í fljótu bragði fann ég ekki þær upplýsingar sem ég leitaði að, t.d. um stefnumörkun í skógrækt hvað varðar sjálfbæra þróun, hvernig samningurinn um líffræðilegan fjölbreytileika fléttast inn í skógrækt á Íslandi og ákveðna þætti sem mér fannst vera spurningar mínar sem kviknuðu. Þær voru þess eðlis að ég fann ekki auðveldlega svör við þeim. Þess vegna tel ég að einboðið sé að við dýpkum þessa umræðu og efnum til hennar á mjög breiðum grunni. Ég held að hv. formaður landbúnaðarnefndar hljóti að fagna því ef stjórnarandstaðan ætlar að lýsa því yfir að hún sé tilbúin í að dýpka og breikka umræðuna til muna og halda henni úti á öflugan hátt sem oftast og víðast. Það hlýtur að vera gott mál.

Ég held að að hluta til sé það ábyrgð sem hæstv. ráðherra hefur á sínum herðum hvað varðar það að kveikja umræðu, breikka hana svolítið eða dýpka, efna til málþinga og gefa út ritlinga eða bæklinga eða koma með skýrslur hingað inn í þingsali. Við höfum ótal tækifæri til að dýpka umræðuna sem ég held að full þörf sé á.

Ég er með í höndunum þingsályktunartillöguna um skógrækt á árabilinu 2004–2008 og þar segir að í uppbyggingu skógræktar að undanförnu hafi þjóðskógarnir okkar orðið útundan og ég hugsa þegar ég les þessa setningu, æ hjálpi mér, þurfum við ekki að taka betur á í þeim efnum? Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvar stöndum við núna varðandi þjóðskógana okkar? Erum við á undanhaldi í þeim efnum eða er búið að snúa undanhaldinu við? En eins og ég segi, meiri umræða er örugglega af hinu góða.