132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Fjármálaeftirlit.

556. mál
[15:14]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki alveg á hvað hv. þingmaður er að fara en málið er það að áður var ráðuneytið leyfisveitandi, sem er ekki lengur, áður var það leyfisveitandi á markaði. Nú hefur Fjármálaeftirlitið fengið það hlutverk og þess vegna var þetta ákvæði inni. Þarna er því verið að blanda saman hlutum sem varða sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins. Sjálfstæðið er fyrir og það er líka eftir að þetta frumvarp verður að lögum, verði það að lögum, en hins vegar er hnykkt sérstaklega á því í frumvarpinu til að það sé engum vafa undirorpið að Fjármálaeftirlitið er algerlega sjálfstætt.

Það að ráðherra sé að tjá sig um gerðir þess er að mínu mati óæskilegt (Gripið fram í.) og þess vegna hef ég forðast það að blanda mér í störf þessarar mikilvægu eftirlitsstofnunar eins og hv. þingmenn þekkja. Ég vona svo sannarlega að það verði einnig skoðun og stefna þeirra ráðherra sem á eftir koma því það skiptir gríðarlega miklu máli að við getum treyst því og markaðurinn geti treyst því að það sé ekki pólitík sem ræður því hvernig Fjármálaeftirlitið starfar. Þá værum við komin út á mjög háskalega braut að mínu mati.