132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Fjármálaeftirlit.

556. mál
[15:22]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef nú heyrt þetta áður og geri mér grein fyrir að það er skoðun Vinstri grænna að hafa ætti þetta með þessum hætti. Ég vil fá að segja það einu sinni enn, ég hef margoft látið það koma fram, að ég tel þetta algjörlega fráleitt. Það tíðkast hvergi að fjármálaeftirlit heyri undir þjóðþing viðkomandi þjóðar. Það má í þessu sambandi t.d. benda á þrískiptingu valdsins. Fjármálaeftirlitið er hluti af framkvæmdarvaldinu sem heyrir að sjálfsögðu undir einhvern ráðherra í ríkisstjórn, sem hér á Íslandi er viðskiptaráðherrann. Ef hv. þingmaður er að bera það saman við umboðsmann Alþingis er það allt annað mál því að hann er eftirlitsaðili með stjórnvaldinu. Og varðandi það að ráðherra skipi stjórn yfir þetta eftirlit þá átta ég mig ekki á hver ætti að gera það annar en ráðherra. Enda held ég að tekist hafi ákaflega vel til með þá stjórnarskipan og ég veit ekki til að hv. þingmaður hafi neinar efasemdir um það.