132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Fjármálaeftirlit.

556. mál
[15:24]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta mál snýst ekki um persónur, um það hvort stjórn Fjármálaeftirlitsins sé rétt skipuð eða hvort ráðherrann sé best til þess fallin. Það snýst ekki um það í sjálfu sér heldur um stjórnsýslulega stöðu. Ég vek athygli á því að hæstv. ráðherra ítrekaði í ræðu sinni mikilvægi þess að ráðherra gæti staðið til hliðar við Fjármálaeftirlitið. Við vitum reyndar að við einkavæðingu bankanna gengu heldur betur boðin á milli Fjármálaeftirlitsins og viðskiptaráðherra sem fór með bankasöluna. Þar var nú heldur skylt skeggið hökunni — þó að ekki sé hægt að segja það beint í líkamlegu tilliti um þann ráðherra — þar sem viðskiptaráðuneytið fór með sölu bankanna og Fjármálaeftirlitið, sem heyrði undir viðskiptaráðherra, var eftirlitsaðili með viðskiptaráðherra við sölu bankanna. Það var afar óeðlilegt því að Fjármálaeftirlitið átti t.d. að kanna áreiðanleika kaupendanna o.s.frv. sem var mikilvægur þáttur í einkavæðingu og sölu bankanna sem heyrðu undir nákvæmlega sama ráðherra. Ég held þeirri skoðun mjög til haga, einmitt í ljósi orða hæstv. ráðherra um hversu mikilvægt er að þarna séu ekki bein stjórnunarleg tengsl á milli, að Fjármálaeftirlitið heyri t.d. undir Alþingi þannig að ráðherra viðskiptamála, samkeppnismála, neytendamála og bankamála geti leitað til Fjármálaeftirlitsins kinnroðalaust með atriði, fyrirspurnir eða mál, sem ráðherra í krafti ábyrgðar á sínum málaflokkum, getur verið nauðsyn á að gera. Ég ítreka að ég legg til að (Forseti hringir.) þetta verði skoðað mjög vandlega.