132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Skattaumhverfi líknarfélaga.

547. mál
[16:30]
Hlusta

Flm. (Sandra Franks) (Sf):

Virðulegi forseti. Í lok umræðunnar vil ég þakka hv. þingmönnum sem tóku þátt í henni. Það var ánægjuefni að þingmenn skyldu hafa svo mikinn og jákvæðan áhuga á þessu máli. Ég held að við getum öll verið sammála um að nauðsynlegt er fyrir stjórnvöld að gera það sem þau geta gert til að bæta starfsumhverfi líknarfélaga. Þau vinna verk sem mörg mundu annars falla á hið opinbera. Þess vegna segi ég óhikað að ríkið sparar fjármagn með því að bæta starfsumhverfi líknarfélaga. Ég held líka að reynslan sýni að líknarfélög nýti fjármagn vel. Störf þeirra eru að langmestu leyti unnin af sjálfboðaliðum og framlag þeirra byggist á hugsjón og umhyggju fyrir skjólstæðingum þeirra.

Þingsályktunartillagan sem við ræðum núna fjallar um aukið skattfrelsi líknarfélaga. Ég vil undirstrika að stjórnvöld hafa með margvíslegum hætti sýnt jákvæðan vilja í garð slíkra félaga. Staðreyndin er hins vegar sú að líknarfélög erlendis búa við talsvert betra skattaumhverfi en félögin á Íslandi. Þessi tillaga gengur út á að sá munur verði jafnaður og íslensk líknarfélög njóti svipaðra skattareglna og erlend félög af sama toga. Ég lagði í fyrri ræðu minni mesta áherslu á fjármagnstekjuskatt. Hann er sérstaklega nefndur í tillögugreininni sjálfri enda tel ég mestu skipta að ná fram breytingum á því máli. Ég vona að hið háa Alþingi verði mér sammála um það. Ég vænti þess að sá skilningur á málinu sem komið hefur fram í umræðunni í dag stuðli að framgangi málsins.