132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Kjaradeila ljósmæðra.

[10:46]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ágætt er að rifja það upp við umræðuna að við Íslendingar erum með líklega besta heilbrigðiskerfi í heimi þó það heyrist ekki alltaf í umræðunni. Það er vegna þess að þegar menn meta heilbrigðiskerfið almennt er langoftast litið til tíðni ungbarnadauða á meðal þjóðanna og við Íslendingar eru með lægstu tíðni ungbarnadauða af þeim þjóðum sem mæla það. Á Íslandi er því afar gott heilbrigðiskerfi.

Um þessa deilu er það að segja að að sjálfsögðu er hér um geysilega mikilvæga þjónustu að ræða. Hún er ódýr. Búið er að draga það fram að einn dagur á sjúkrahúsinu fyrir móður og barn er dýrari en vika með þjónustu ljósmóður heima. Það er því geysilega mikilvægt að samkomulag náist.

Nú hafa þessar verktakagreiðslur viðgengist í um það bil 12 ár og ljósmæður telja að þær hafi dregist um 40% aftur úr varðandi þær greiðslur sem þær fá og gera kröfur um leiðréttingar. Auðvitað er það skiljanlegt. En eins og hér kom fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra verður líka að huga að jafnræði. Það eru auðvitað fleiri stéttir sem miða sig við ljósmæður og ljósmæður miða sig við aðrar stéttir þannig að allt hangir þetta saman. En vegna þess að þetta er ódýrt úrræði munu menn að sjálfsögðu skoða vel hvað þeir geta gert til að ná samningum.

Ég tel mjög brýnt að þetta leysist sem fyrst. Það eru átta konur sem fæða á dag á Landspítalanum, þarna er því um nokkurn hóp að ræða. En að sjálfsögðu verður að gæta samhengis hlutanna og ekki er hægt að semja um hvað sem er. Ég tel mjög brýnt að leysa þessa deilu og ég veit að hæstv. heilbrigðisráðherra mun gera það sem hann getur til að þoka þessu á leiðarenda.