132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Kjaradeila ljósmæðra.

[10:48]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er búin að vera ágætisumræða sem hefur dregið fram ýmsar athyglisverðar upplýsingar. Til dæmis fór hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, sem síðast talaði, yfir það að við megum vera lánsöm með hversu gott heilbrigðiskerfi við eigum og vísaði þá til hlutfalls ungbarnadauða.

Kostnaðarþáttur málsins kom líka fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Hérna erum við með frábæra þjónustu sem ég held að enginn velkist í vafa um að er afskaplega góð og mikilvægur valkostur fyrir konur sem eru búnar að fæða börn og er í ofanálag mun ódýrari og meira að segja miklu ódýrari en hinn valkosturinn sem er til staðar. Það er því allt sem mælir með þessari þjónustu sem hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum. Vísað hefur verið í það að þeim konum sem hafa farið heim innan 36 tíma hefur fjölgað úr 4% í rúm 64% á tiltölulega fáum árum.

Það er auðvitað erfitt fyrir okkur sem hér erum að reyna að leysa kjaradeilur úr þessum stól, enda held ég að enginn ætlist til að það verði gert. Ég held hins vegar að sú staða sem uppi er eða réttara sagt þessi umræða sýni að það skiptir mjög miklu máli að líta á hlutina í heildarsamhengi þegar við skoðum heilbrigðiskerfið. Ég hef trú á að mikilvægt sé að hafa val til staðar og ég vona sannarlega og treysti því og efast ekki um að hæstv. ráðherra mun gera allt það sem hann getur til að leysa úr þessu máli þannig að við getum áfram verið með þá frábæru þjónustu sem ljósmæður veita og er þjóðfélaginu öllu til sóma.