132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Kjaradeila ljósmæðra.

[10:54]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hins vegar vil ég lýsa yfir vonbrigðum með svör hæstv. heilbrigðisráðherra. Mér fannst hæstv. heilbrigðisráðherra sýna frekar takmarkaðan vilja til að bregðast við þessu ófremdarástandi. Hæstv. heilbrigðisráðherra talar um að málið snúist ekki um upphæðir. Ef farið væri eftir ýtrustu kröfum ljósmæðra mun það valda 15 millj. kr. viðbótarkostnað á ári fyrir ríkissjóð, 15 milljónir. Þetta er ekki neitt neitt til að bregðast við þeim vanda sem blasir við og þeim aukna kostnaði sem þetta ástand leiðir af sér. Einn sólarhringur á spítala kostar jafnmikið og ein vika í heimaþjónustu.

Þetta snýst líka um það að yfirmaður heilbrigðismála í landinu, hæstv. heilbrigðisráðherra, bregðist við því ástandi sem skapast vegna þessarar deilu. Við sjáum að fjölskyldur landsins búa núna við skerta þjónustu. Við sjáum að kostnaður ríkisvaldsins er að aukast vegna þessa og þetta býður þeirri hættu heim að aðrar deildir munu jafnvel verða fyrir auknu álagi og þar af leiðandi fyrir auknum kostnaði.

Þetta snýst einnig um að nú mun líða undir lok eftirlit með félagslegum aðstæðum ungra barna og það er mjög mikilvægt því ljósmæður fara heim til nýbakaðra foreldra og taka aðeins út aðstæður barna. Þetta er eftirlit sem má ekki vanmeta.

Ég tel, frú forseti, ekki vera ásættanlegt að segja eins og hæstv. heilbrigðisráðherra sagði að málið sé einfaldlega bara í farvegi og hann vonist eftir samningi. Auðvitað vonumst við öll eftir samningi en við viljum sjá að brugðist sé við þessum vanda. Deilan er enn þá í hnút þrátt fyrir þennan fund í gær og ekki er lengra síðan en í síðustu viku að hæstv. heilbrigðisráðherra talaði um það að hann vildi efla heimaþjónustu í heilbrigðiskerfinu. Nú hefur hann tækifæri til að efla heimaþjónustu í heilbrigðiskerfinu því hún er ódýrari og skynsamlegri, en hann vill ekki bregðast við því.

Ljóst er að nú fer mun stærri hluti kvenna fyrr heim af spítalanum en áður eða um 65% innan 36 klukkustunda. Þetta eykur (Forseti hringir.) auðvitað kostnað hjá Tryggingastofnun en lækkar kostnað Landspítalans. Við þurfum að líta á báðar hendur okkar en ekki einungis þá hægri, því almennrar skynsemi er þörf í þessu máli, frú forseti.