132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Kjaradeila ljósmæðra.

[10:57]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hjá hv. ræðumönnum hefur nokkuð komið fram um heildarsamhengi í þessum málum. Ég er alveg sammála því og sú umræða er reyndar alveg óþörf vegna þess að ég tók það fram í upphafi að við viljum hafa þessa þjónustu og viljum ná samningum við þann hóp sem hér er um að ræða.

Ekki er um að ræða neinar tiltakanlega háar upphæðir. Þetta er ekki stór hópur en verið er að tala um prósentuhækkanir og viðmiðunarstéttir. Það er það sem á stendur í þessu máli en vonandi leysum við úr því. Ég endurtek að umrædd þjónusta er þörf, hún er hagkvæm og við þurfum að hafa hana. En eins og er í öðrum kjarasamningum eru viðmiðanir og viðmiðunarstéttir, það eru prósentuhækkanir sem horft er á fremur en að um sé að ræða einhverjar ókleifar upphæðir fyrir ríkissjóð. Það er ekki það sem er um að ræða í þessu tilfelli.

Varðandi þjónustu við konur á landsbyggðinni með eðlilega fæðingu, eins og hv. þm. Þuríður Backman kom að, tel ég einboðið að heilsugæslan þurfi að auka þjónustu sína eftir föngum. Umhverfið þar hefur breyst varðandi fæðingar. Á sumum sjúkrahúsum hafa fæðingar verið lagðar niður vegna þess að þær eru ekki nógu margar á ári og það verður að auka þá þjónustu á landsbyggðinni þar sem svo háttar til. (Forseti hringir.)

Ég endurtek í lokin að ég vonast til að í þessari deilu (Forseti hringir.) eins og öðrum náist samningar og við stöndum upp að lokum með samninga í höndum.