132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Hafnalög.

380. mál
[11:11]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Með ræðu hv. þm. Kristjáns L. Möllers sannast það nú með betri rökum en oft áður hversu vitlaust það var að ráðast í þær breytingar á hafnalögunum sem samþykktar voru hér fyrir nokkru. Það leiðir til þess að hafnirnar tapa tekjum og möguleikum á að byggja sig upp með nægilega öflugum hætti. Hafnir landsins eru með vissum hætti súrefnisgáttir byggðarinnar. Um þær fara vöruskiptin, þangað kemur aflinn af hafinu og um þær er flutt unnið hráefni. Ég þarf svo ekki að nefna það sem ég hef margsinnis ítrekað hér og haldið töluvert margar ræður um, þ.e. þær nýju byrðar sem höfnum landsins voru færðar með nýjum lögum um svokallaða siglingavernd. Þá voru lagðir níu nýir skattar á hafnir landsins vegna einhverrar vitleysu sem kom að utan og taugaveiklunar gagnvart viðbrögðum í kjölfar hryðjuverkaárásar á Bandaríkin. Um það ætla ég ekki að fjölyrða hér.

Ég verð hins vegar að segja að það þarf töluverðan kjark til að koma hér og halda ræðu eins og hv. þm. Kristján L. Möller gerði. Hann hefur margsinnis reifað þessar hugmyndir sínar og jafnan hlotið fyrir sprok og árásir hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Þeir hafa rifjað það upp að á sínum tíma var Skipaútgerð ríkisins lögð af og hafa oft spurt í forundran: Er hv. þingmaður að leggja til að Skipaútgerðin verði tekin upp? Að sjálfsögðu ekki. Það vill svo til að ég hef flutt tillögu hér ásamt nokkrum þingmönnum Samfylkingarinnar, þar með töldum hv. þingmanni, um að fara þessa útboðsleið sem hv. þingmaður reifaði hér áðan. Sú leið byggist á fordæmi sem ríkið sjálft hefur gefið. Við notum svipaðar aðferðir til að tryggja flugsamgöngur til einstakra staða. Það er ekkert að því að skoða þessa leið út í hörgul. Hv. þingmaður flutti hér ýmis rök fyrir því. Það er sérstaklega ein röksemd sem ég staldraði við og vil taka undir. Hv. þingmaður benti á að með því að opna þessa nýju lífæð á sjónum, strandsiglingarnar, hugsanlega með hvata og fyrir tilverknað ríkisins með þeim hætti sem hv. þingmaður nefndi, er verið að létta gríðarlega miklum þunga af vegum landsins.

Hv. þingmaður nefndi umferðaröryggi. Síst skal ég lasta þá röksemd enda sjálfur yfirleitt skjálfandi í sæti mínu þegar ég ek á vegum landsins og mæti þessum stóru flutningabílum hlöðnum fiski. Það þarf enginn um sárt að binda sem lendir í einhvers konar óhappi þegar þeir eru annars vegar. En við búum við nýtt umhverfi, ekki bara Íslendingar heldur heimurinn allur, sem er hin nýja vá hlýnunar lofthjúpsins. Þessi ríkisstjórn verður eins og aðrar ríkisstjórnir að freista allra leiða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við vitum að um það bil þriðjungurinn af því sem Íslendingar losa er vegna samgangna. Ekki skal ég segja hversu mikið væri hægt að draga úr því með að flytja þungaflutninga út á sjó en það er sannarlega þess virði að skoða það. Ríkisstjórnin virðist ekkert hugsa um þetta. Í orði lofar hún að ráðast í aðgerðir sem draga úr losun og við höfum séð háleit markmið en hún hefur engan áhuga á því. Hún hampar t.d. ekki lengur vetnisverkefninu eða reynir að hraða því. Hún reynir ekki að setja fjármagn í nýjar leiðir til að draga úr losun. Þvert á móti er hún stöðugt að skapa væntingar eða lofa að ráðast í stórframkvæmdir sem munu auka losun út í lofthjúpinn. Ríkisstjórnin fer um landið og einn ráðherra lofar álverum hér, annar þar og sá þriðji alls staðar. Allt er þetta vegna þess að Framsóknarflokkurinn hangir á horriminni og horfir niður í ginnungagap kosningataps. Hann er að reyna að kaupa sér atkvæði með þessu. Hann skirrist einskis. Hann hugsar ekkert um afleiðingarnar. Hann hugsar ekkert um Kyoto-samkomulagið. Hann hugsar ekkert um leiðir til að reyna á móti að draga úr losun. Alls ekki.

Það eru þingmenn ríkisstjórnarinnar sem koma og draga dár að hugmyndum eins og þeirri sem hv. þm. Kristján L. Möller flutti hér áðan. Það, frú forseti, er fífldirfska svo ekki sé meira sagt. En sú skammsýni sem birtist oft í gagnrýninni á þessa hugmynd um strandflutningana, og með hvaða hætti ríkið gæti skapað hvata til að koma þeim á, sýnir betur en allt annað að ríkisstjórnin leiðir aldrei hugann að því stóra grundvallarvandamáli sem losun gróðurhúsalofttegunda er. Hún leiðir aldrei hugann að því hvernig finna megi nýjar leiðir til að draga úr þeirri losun. Sú röksemd sem hv. þingmaður var með hér áðan var fín röksemd ein og sér fyrir því að þessi leið yrði skoðuð.