132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Hafnalög.

380. mál
[11:21]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af þeim orðum sem hv. þingmaður viðhafði um þá þingsályktunartillögu sem hann gerði að umtalsefni: Ég fagnaði henni mjög vegna þess að um er að ræða nákvæmlega sömu tillögu og ég flutti ásamt mörgum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar þegar og áður en strandsiglingar voru lagðar niður. Við sáum hvert stefndi og lögðum til að þessi leið yrði farin, þessi útboðsleið. Þegar ég segi, virðulegi forseti, að ég fagni þeirri tillögu sem hv. þm. Hlynur Hallsson gerði að umtalsefni þá geri ég það vegna þess að það er ný nálgun hjá þingmönnum Vinstri grænna, þeim sem flytja þessa tillögu, að fara þessa útboðsleið. Áður töluðu þeir nánast um að taka upp Skipaútgerð ríkisins að nýju og að ríkið færi í skipaútgerð. Ég var því algerlega ósammála og tel að ríkissjóður eigi aldrei að standa í þess háttar rekstri. En sú tillaga sem þarna hefur verið flutt er efnislega alveg samhljóða því sem við þingmenn Samfylkingarinnar fluttum strax þegar fyrirsjáanlegt var að strandsiglingar mundu leggjast af. Það er einmitt inngangurinn í þeirri tillögu að láta kanna og fara þessa útboðsleið að sigla til ákveðinna hafna, bjóða það út og segja: Hvað vilja skipafélögin bjóða í þessa flutninga til að fá þá? Ég hika ekki við að halda því fram, virðulegi forseti, að við fengjum mjög góð tilboð og það miklu lægri en maður hefur gert sér grein fyrir áður þegar maður horfir til þess að það er mikilvægt fyrir skipafélagið sem hreppir þá flutninga að fá þá að halda þeim flutningum áfram til hafna erlendis.