132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Hafnalög.

380. mál
[11:26]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér er um mjög skynsamlega tillögu að ræða. Maður er eiginlega hissa á því að menn skuli ekki fyrir löngu vera búnir að hrinda henni í framkvæmd. Það þarf ekki frekari vitnanna við en fara einfaldlega um vegi landsins. Okkur sem keyrum mikið um kjördæmin og þurfum að vera á eftir vöruflutningabílum í röðum finnst það með ólíkindum að menn reyni ekki að draga úr umferð þeirra á vegunum. Strandflutningar eru ein leiðin til þess.

Það væri fróðlegt að fá viðbrögð hv. þingmanna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks við þessari tillögu, hvort menn geti ekki tekið undir skynsamlega tillögu stjórnarandstöðunnar eða hvort þeir þurfi að setja hana fram sjálfir. Það blasir við öllum að hér er öðrum þræði um umferðaröryggismál að ræða og einnig er þetta spurning um samkeppnisstöðu atvinnuveganna á landsbyggðinni, sem varðar íbúa landsins miklu. Hvers vegna er ekki hægt að fá fram afstöðu þingmanna Framsóknarflokksins til þessa máls sem varðar landsbyggðina miklu? Er flokkurinn hreinlega upptekinn í öðru? Og hvað með Sjálfstæðisflokkinn, hafa menn enga skoðun á þessu máli? Mér finnst þetta skipta verulega miklu máli. Um er að ræða mjög skynsamlega tillögu sem allir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa tekið undir á þingi. Ekki ætla ég að fara að ræða það í smáatriðum hver fann upp á þessu máli, enda skiptir það ekki öllu máli. Hér er um gott mál að ræða sem mér finnst tímabært að þingmenn stjórnarliðsins ræði og skýri frá afstöðu sinni.