132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Heimildir lögreglu til að leita uppi barnaníðinga.

[11:39]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil leggja áherslu á tvennt í þessari umræðu. Í fyrsta lagi er ég fylgjandi forvarnastarfinu. Lögreglan á að sjálfsögðu ekki að láta sitja við það eitt að finna glæpamenn, heldur að reyna að koma í veg fyrir afbrot og glæpi. Í öðru lagi vil ég leggja áherslu á að það sem hér um ræðir, brot gegn börnum, níðingsverk framin á börnum, eru einhver alvarlegasti glæpur sem um ræðir og á að taka alvarlega í samræmi við það.

Hins vegar erum við að tala um það hér og nú hvort lögreglan eigi að hafa heimild til að nota svokallaðar tálbeitur, setja á svið glæp, jafnvel taka þátt í glæp, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, til að finna glæpamanninn, til að lokka fram í dagsljósið þann sem framið hefur glæp eða hugsanlega hefur áform um slíkt. Ég tel að hér séum við komin inn á mjög vafasamar og hálar brautir. Við höfum rætt það í þessum sal að lögreglan fái rýmri heimildir en þegar er til að dreifa til að setja á fót svokallaðar greiningardeildir sem fjalli um landráð, hryðjuverk, mansal, skipulagt vændi, peningaþvætti o.s.frv. Ekki aðeins til að upplýsa um þá glæpi sem þegar hafa verið framdir, heldur til að fyrirbyggja að glæpir verði framdir. Þá þarf að fylgjast með þeim sem hugsanlega kæmu þar við sögu. Það er ávísun á persónunjósnir, eða sú hætta er a.m.k. fyrir hendi og þá hættu ber okkur að taka mjög alvarlega í lýðræðisþjóðfélagi.

Hæstv. forseti. Ég vara við því að við förum út á þessar brautir þó að ég taki undir með hv. málshefjanda, og þakki honum fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli, að það þarf (Forseti hringir.) að efla rannsóknir, umræðu og að sjálfsögðu að hafa fælingarmáttinn. Hann kemur (Forseti hringir.) m.a. fram í refsingum gagnvart þessum alvarlegu glæpum.