132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Heimildir lögreglu til að leita uppi barnaníðinga.

[11:43]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að færa þetta mál hér til umræðu því að umræðan er vissulega þörf. Við höfum séð að tálbeitur hafa verið notaðar af fjölmiðlum. Einnig hafa verið notaðar tálbeitur við tóbaksvarnir. Það er verið að senda börn undir aldri til að kaupa tóbak og enn fremur hefur lögreglan notað tálbeitur. Þetta er vandmeðfarin aðferð í baráttu gegn glæpum. Það sannaðist best í máli sem kom hér upp fyrir um 13 árum, þegar afbrotamaður sem átti við geðræn vandamál að stríða var lokkaður í gildru lögreglunnar, að það var í rauninni mjög vafasamt mál í alla staði.

Hvað varðar þessi mál tel ég vert að fara yfir þau og skoða hvort þetta sé eina leiðin til að ráðast gegn slíkum glæpum. Það má vera að þetta sé mjög öflug leið en það eru aðrar leiðir sem við verðum líka að hvetja til hér úr þessum ræðustól, þ.e. að foreldrar fylgist með börnunum sínum. Það skiptir ekki síður máli en að við samþykkjum hér auknar heimildir til að lokka menn til afbrota. Það er í rauninni mjög vafasamt og umdeilanlegt hver sem á í hlut.