132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Heimildir lögreglu til að leita uppi barnaníðinga.

[11:50]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég er tilbúin til þess að leggja mikið á mig til að reyna að koma í veg fyrir glæpi gegn börnum. Það er þó með blendnum hug, verð ég að segja, sem ég reyni að gera upp hug minn varðandi spurninguna um tálbeiturnar, þetta tiltekna mál sem hv. málshefjandi notar sem kveikju að þessari umfjöllun. Ég tel eðlilegt að við séum vör um okkur þegar fjölmiðlar ætla að fara að búa til fréttaefni og ég tel eðlilegt að við spyrjum okkur þeirra spurninga hvað knýi fjölmiðla áfram í þeim efnum. En hér er náttúrlega um svo alvarlegan brotaflokk að ræða og þegar maður skoðar það hvort lögreglan eigi að hafa heimildir til að beita tálbeitum í þessum tilfellum þá þurfum við að spyrja okkur fleiri en einnar spurningar, eins og hér hefur komið fram í umræðunni. Tálbeitur hafa hingað til helst verið notaðar í fíkniefnamálum. Í málum er varða barnaníðinga er hins vegar verið að láta menn fremja glæpinn og samkvæmt lögum má ekki hvetja til þess að glæpur sé framinn og auðvitað lögreglan síst af öllum. Hér því um erfitt álitamál að ræða.

Svo má líka spyrja sig spurninga og ég hef reynt að kanna hvort til séu einhverjar rannsóknir um það hvort þeir karlar sem leita eftir börnum á netinu, þá kannski börnum sem eru að falbjóða sig á netinu, það er ekki vitað hvort þetta eru sömu níðingarnir og leita á börn undir öðrum kringumstæðum þannig að hér þarf líka að láta fara fram ákveðnar rannsóknir sem við hér í þessum sal þurfum að skoða.

Annað sem við í þessum sal getum líka gert er að kanna hvað hið opinbera leggur af mörkum til að vernda börn gegn kynferðisofbeldi, t.d. með tilliti til fræðslu og annarra þátta eins og forvarna sem hér hafa verið nefndar. Meðan þeir opinberu aðilar sem ættu að standa öflugan vörð um öryggi barna og tryggja réttarvernd þeirra eru ekki að standa sig er ástandið óviðunandi.