132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Stofnun framhaldsskóla í Mosfellsbæ.

176. mál
[12:14]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Herra forseti. Ég fagna þessari fram komnu þingsályktunartillögu frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni og Kolbrúnu Halldórsdóttur um stofnun framhaldsskóla í Mosfellsbæ.

Það er rétt sem hér hefur komið fram að þrátt fyrir að menn hafi nokkrum sinnum nefnt nauðsyn þess að setja upp framhaldsskóla í Mosfellsbæ hefur verið talað fyrir afskaplega daufum eyrum. Er ég spurði hæstv. menntamálaráðherra hvort hún hygðist koma á fót framhaldsskóla í Mosfellsbæ eða ekki var svarið: Eins og staðan er í dag tel ég það ekki tímabært.

Áhuginn er ekki mikill á þeim bæ og hér hefur jafnframt komið fram að núverandi meiri hluti sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ hefur ekki þrýst mikið á að þar verði byggður framhaldsskóli. Þetta er því miður rétt en það er ekki þar með sagt að skólinn sé ekki nauðsynlegur. Íbúar í Mosfellsbæ telja hann nauðsynlegan. Sveitarfélagið telur núna 7.300 manns og það eru ekki nema þrjú ár í að fjöldinn verði kominn upp í 10.000 þannig að vegna fjölda fólks á framhaldsskólaaldri er full ástæða til að reisa skólann. Í Mosfellsbæ eru tveir grunnskólar og þeir eru þegar orðnir yfirfullir.

Eitt af því sem hefur verið nefnt hér er umferðarmál og að sjálfsögðu skipti miklu máli ef skóli kæmi í Mosfellsbæ, m.a. með tilliti til þess gífurlega umferðarþunga sem er um Vesturlandsveg frá Skarhólabraut í Mosfellsbæ að Víkurvegi í Reykjavík. Þetta er fjölfarnasti vegur landsins og að sjálfsögðu mundi skipta þar miklu máli ef nokkur hundruð framhaldsskólanemar þyrftu ekki að aka hann tvisvar, þrisvar, fjórum sinnum á dag. Auk þessa er að sjálfsögðu hagsmunamál fyrir íbúa Mosfellsbæjar og nágrennis að þurfa ekki að setja fé í ferðakostnað til Reykjavíkur, í aðra skóla.

Minnst hefur verið á möguleika á sérstöðu eins og t.d. varðandi endurhæfingarmál í tengslum við Reykjalund. Það er mjög góð hugmynd sem ég fagna að hafi hér verið viðruð. Jafnframt gæti þessi skóli verið með sérstakar greinar er tengdust umhverfismálum því að ekki er seinna vænna að taka það sérstaklega fyrir í framhaldsskólakerfinu.

Það er gert ráð fyrir því í aðalskipulagi Mosfellsbæjar að framhaldsskóli rísi í sveitarfélaginu í framtíðinni, ekki einungis til að þjóna Mosfellingum heldur og nærliggjandi hverfum sem t.d. á að fara að reisa núna undir hlíðum Úlfarsfells.

Herra forseti. Ég fagna þessari umræðu en harma það hversu lítill þrýstingur er, því miður, frá bæjarstjórn í Mosfellsbæ, núverandi meiri hluta. Ég get fullvissað fólk um að minni hlutinn mun setja þetta mál, og hefur gert, algerlega á oddinn en jafnframt lýsi ég yfir vonbrigðum með menntamálaráðherra, að ekki skuli vera meiri áhugi fyrir að líta til Mosfellsbæjar þegar kemur að því að reisa fleiri framhaldsskóla. Sveitarfélagið er orðið nægilega stórt eins og hér hefur komið fram. Þar búa 7.300 manns í dag. Eftir þrjú ár verður fjöldinn orðinn 10.000 og stefnir í 13.000 eftir fimm ár þannig að það er ekki seinna vænna að fara að huga að því að reisa framhaldsskóla í Mosfellsbæ.