132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Almenn hegningarlög.

209. mál
[12:31]
Hlusta

Flm. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Frumvarp þetta lýtur að því að afnema fyrningarfrest í kynferðisafbrotum gegn börnum.

Frumvarpið var fyrst lagt fram á Alþingi á 130. löggjafarþingi en þá varð það ekki útrætt. Það var síðan lagt fram að nýju á síðasta þingi og þá hlaut frumvarpið afgreiðslu í allsherjarnefnd þvert á vilja sjálfstæðismanna í nefndinni en hún klofnaði í afstöðu sinni til málsins. Þrátt fyrir að allsherjarnefnd hefði afgreitt þetta mál frá sér hlaut það ekki afgreiðslu í þingsal, sem að mínu mati telst vera mjög ámælisvert og það skrifast eingöngu á þáverandi forseta Alþingis, Halldór Blöndal, sem ákvað að setja málið ekki á dagskrá þrátt fyrir að allsherjarnefnd hefði afgreitt málið. Þingheimur hefur því ekki enn fengið tækifæri til að greiða atkvæði um frumvarpið. En ég vona að það geti orðið núna í ár.

Fjöldi umsagna hefur borist um málið og eru langflestar jákvæðar. Umboðsmaður barna hefur m.a. lýst yfir stuðningi við frumvarpið í umsögn sinni. Hann hefur lengi hvatt Alþingi til að afnema fyrningarfresti vegna kynferðisafbrota gegn börnum. Kom sú hvatning fyrst fram í skýrslu hans frá 1997. Í frumvarpinu er því farið eftir tilmælum umboðsmanns barna. Barnaverndarstofa styður frumvarpið eindregið og barnaverndarnefnd Reykjavíkur, stjórn Barnaheilla, samtök um Kvennaathvarf, Femínistafélag og Mannréttindaskrifstofa Íslands telja að þetta frumvarp eigi að samþykkja. Átakshópurinn Blátt áfram er verkefni unnið í samvinnu við Ungmennafélag Íslands og felst í að efla forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum á Íslandi, hefur staðið fyrir áskorun á heimasíðu sinni, www.blattafram.is, þar sem fólk er hvatt til að senda áskoranir til þingheims um að samþykkja frumvarpið.

Skemmst er frá því að segja að um 16 þúsund manns hafa skrifað undir slíka áskorun og hafa þessar undirskriftir verið afhentar allsherjarnefnd. Ungliðahreyfingar allra stjórnmálaflokka ályktuðu einnig til stuðnings frumvarpinu. Þing unga fólksins með þátttöku fólks úr öllum stjórnmálaflokkum hefur ályktað sömuleiðis um að fara bæri þessa leið. Það er því ljóst að frumvarpið nýtur víðtæks stuðnings, jafnt á meðal fagaðila og stjórnmálahreyfinga sem almennings.

Kynferðisafbrot gegn börnum eru í eðli sínu ólík öðrum ofbeldisbrotum og er nauðsynlegt að viðurkenna sérstöðu þeirra. Sakir þeirrar sérstöðu vilja flutningsmenn frumvarps þessa afnema fyrningarfrest brota samkvæmt 194.–202. gr. almennra hegningarlaga. Þetta lýtur að því að afnema brot sem eru framin gegn einstaklingum sem eru yngri en 14 ára.

Aðstöðumunur geranda og þolanda er eðli máls samkvæmt gríðarlegur. Brotaþoli er hvorki í aðstöðu til að skynja að um lögbrot sé að ræða né þekkir hann leiðir til að losna undan oki gerandans. Þolandinn áttar sig e.t.v. ekki fyrr en mörgum árum síðar á að brotið hafi verið gegn honum eða bælir minninguna um ofbeldið í langan tíma og telur sig jafnvel sjálfan bera sök. Þess vegna geta liðið mörg ár og jafnvel áratugir þar til kæra er lögð fram í slíkum málum. Gerandi á ekki að hagnast á þeim mikla aðstöðumun sem er á honum og brotaþola, sem er barn.

Oft koma þessi brot ekki fram í dagsljósið fyrr en mörgum árum eftir að þau voru framin og jafnvel ekki fyrr en brotaþolar hafa náð fullorðinsaldri. Þetta á ekki síst við þegar gerandi er í fjölskyldutengslum við brotaþola.

Samkvæmt ársskýrslu Stígamóta fyrir árið 2004 líður oft mjög langur tími frá því að brot gegn barni er framið þar til brotaþolinn er reiðubúinn að ræða málið og leita sér aðstoðar. Um 50% þeirra sem leituðu til Stígamóta höfðu orðið fyrir kynferðisbroti á aldrinum 0–10 ára en tæplega 63% á aldrinum 0–15 ára. Sé hins vegar litið á hvenær fólk leitar sér aðstoðar hjá Stígamótum kemur í ljós að rúmlega 40% eru 30 ára eða eldri. Samkvæmt núverandi fyrningarreglum eru öll kynferðisafbrot gegn barni sem er 14 ára eða yngra fyrnd þegar viðkomandi fórnarlamb hefur náð 29 ára aldri.

Um 47% þeirra sem leita til Stígamóta eru á aldursbilinu 19–29 ára en sé um kynferðisbrot gegn barni að ræða eru sum slík brot fyrnd þá þegar þar sem fyrningarfrestir vegna þeirra eru frá 5 árum til 15 ára og byrjar fresturinn að líða á 14 ára afmæli brotaþolans. Ljóst er því að fyrningarfrestir eru of skammir fyrir stóran hóp brotaþola. Dómar þar sem menn hafa verið sýknaðir fyrir kynferðisbrot gegn börnum jafnvel þótt sekt hafi verið sönnuð staðfesta þetta. Dómstóllinn kemst sem sagt að þeirri niðurstöðu að viðkomandi er sekur en sýknar viðkomandi vegna fyrningar. Það er gert í þessari röð. Það er óásættanlegt að mínu mati.

Samkvæmt ársskýrslu Stígamóta bárust einungis 6% af þeim málum sem komu til kasta Stígamóta til opinberra aðila. Í skýrslunni er tekið fram að gildandi fyrningarreglur séu ein af ástæðunum fyrir því að svo fá mál komast til umfjöllunar opinberra aðila.

Flutningsmenn telja einnig rétt að afnema fyrningu í öllum kynferðisbrotum gegn börnum sakir þess að hér er um sérlega viðkvæman hóp brotaþola að ræða. Ekki er talið rétt að gera greinarmun á kynferðisafbrotum gegn börnum eftir verknaðaraðferð þegar kemur að fyrningarreglum. Kynferðisbrot gegn börnum eru í öllum tilvikum alvarleg og fela í sér gróft brot á þeim verndarhagsmunum sem um ræðir.

Sömuleiðis hefur dómaframkvæmd leitt í ljós að gróf kynferðisafbrot gegn barni geta átt við þau ákvæði almennra hegningarlaga sem lögð er vægari refsing. Þá á ég t.d. við ákvæði um kynferðislega áreitni. Breyting á ákvæðum hegningarlaganna frá 1991 fjallaði um kynferðislega áreitni sem ekki telst slík misnotkun á líkama að hún komi í stað hefðbundins samræðis eða hafi gildi sem slíkt, þ.e. „önnur kynferðismök“. Við höfum því samræði og önnur kynferðismök, síðan höfum við kynferðislega áreitni.

Hugtakið önnur kynferðismök ber að skýra fremur þannig að átt sé við kynferðislega misnotkun á líkama annarrar manneskju er kemur í stað hefðbundins samræðis eða hefur gildi sem slíkt. Þar er átt við athafnir sem veita eða eru almennt til þess fallnar að veita hinum brotlega kynferðislega fullnægingu. Með kynferðislegri áreitni er hins vegar átt við ýmiss konar káf, þukl og annars konar líkamlega snertingu og ljósmyndun af kynferðislegum toga.

Í greinargerð með frumvarpinu frá 1991 segir að rétt þyki að veita slíkri háttsemi, þ.e. kynferðislegri áreitni, meiri athygli en áður með því sérákvæði sem þá var sett og taka harðar á brotum sem snerta kynferðislega áreitni. Vilji löggjafans stóð því til að minnka þann greinarmun sem gerður er á samræði annars vegar og hins vegar kynferðislegri áreitni gegn barni.

Ef kynferðisathafnir falla ekki undir neina af framangreindum verknaðarlýsingum, þ.e. samræði, önnur kynferðismök eða aðra kynferðislega áreitni, kann 209. gr. að eiga við um þær, þ.e. brot gegn blygðunarsemi. Frumvarp þetta tekur ekki til 209. gr. almennra hegningarlaga, tekur ekki á ákvæði sem er um brot á blygðunarsemi.

Af skýringum í greinargerð sem fylgdi ákvæði um blygðunarsemi má gera ráð fyrir að undir ákvæði 209 gr. laganna falli háttsemi önnur en káf og þukl á líkama, t.d. gægjur á glugga, berháttun og önnur strípihneigð, og klúrt orðbragð í síma, eins og þar stóð. En með samþykkt þessa frumvarps mundu slík brot eftir sem áður fyrnast.

Flutningsmenn telja að kynferðisafbrot þar sem gerandi snertir barn með kynferðislegum hætti eða ljósmyndar það í kynferðislegum tilgangi, sbr. 200.–202. gr., skuli eftir sem áður aðgreinast frá þeirri háttsemi sem fellur undir ákvæði 209. gr. sem er um brot á blygðunarsemi með tilliti til fyrningar.

Af dómum má ráða að mörkin milli annarra kynferðismaka og kynferðislegrar áreitni séu oft óljós og verður engan veginn ætlað að á þessum brotum sé slíkur grundvallarmunur að réttlætanlegt sé að gera þar greinarmun með tilliti til fyrningar. Þannig hafa mismunandi dómar fallið í málum þar sem gerandi hefur gerst sekur um að sleikja kynfæri stúlkubarna. Sú háttsemi að sleikja kynfæri stúlkubarns utanverð hefur verið talin til kynferðislegrar áreitni en sú háttsemi að sleikja innanverð kynfæri stúlku hins vegar talin til annarra kynferðismaka. Kynferðisleg áreitni getur því átt við mjög alvarlega glæpi gagnvart börnum. Flutningsmenn frumvarps þessa telja að afar óeðlilegt sé að aðskilja þessi brot með tilliti til fyrningar. Það er mismunandi refsing við þessum brotum en við teljum að það eigi ekki að gera greinarmun með tilliti til fyrningar þegar kemur að kynferðislegri áreitni sem getur verið mjög alvarleg, eins og fram hefur komið, og síðan kynferðismök.

Ljóst er því að afar erfitt er að setja skýr mörk milli svokallaðra vægra kynferðisafbrota annars vegar og grófra hins vegar. Reyndin er sú að kynferðisafbrot gegn börnum brjóta gegn sömu verndarhagsmunum, þ.e. bæði kynferðislega áreitnin og kynferðismökin, og eru líkleg til að hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir þolanda, hvort sem um samræði, önnur kynferðismök eða kynferðislega áreitni er að ræða. Í öllum tilvikum snertir hinn brotlegi barn á kynferðislegan hátt. Í öllum tilvikum eru líkur á að brotaþoli leiti aðstoðar seint og um það snýst þessi sérstaða. Þolandinn sem hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni leitar því aðstoðar seint. Þess vegna eiga þau brot einnig að vera án fyrningar að okkar mati.

Mig langar að vitna í það sem Thelma Ásdísardóttir sagði í Morgunblaðinu ekki alls fyrir löngu. Með leyfi forseta, sagði Thelma Ásdísardóttir, sem allir hér inni þekkja:

„Afleiðingarnar af káfi geta verið þær sömu og ég barðist við þegar ég kom fyrst inn í Stígamót. Ofbeldi er ekki mælt í magni. Það er nóg að brjóta spegil bara einu sinni og hann verður aldrei heill.“

Breytingartillögur meiri hlutans á síðasta þingi og það frumvarp sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur núna kynnt um að láta fyrningarfrestinn byrja við 18 ára aldur í stað 14 ára aldurs lengir aðeins fyrningarfrestinn um fjögur ár. Það er allt og sumt. Verði slík tillaga samþykkt munu því öll kynferðisafbrot gegn börnum vera fyrnd þegar þolandinn er orðinn 33 ára og sum þeirra brota munu fyrnast fyrr eins og þau brot sem lúta að kynferðislegri áreitni.

Það er því ljóst að frumvarp ríkisstjórnarinnar mun ekki mæta þörfum stórs hóps þolenda. Enn munu margir þolendur ekki geta leitað réttar síns fyrir dómstólum sakir þess að brotin verða fyrnd. Munum að 40% þeirra sem leita til Stígamóta eru 30 ára og eldri. Eftir sem áður munu dómstólar því sýkna gerendur í kynferðisbrotamálum gegn börnum, jafnvel þótt sekt þeirra sé talin sönnuð og sú hætta er óásættanleg að mínu mati. Þess vegna teljum við að frumvarp hæstv. ráðherra vinni ekki gegn þeim aðstöðumun sem er á þolanda og geranda kynferðisafbrota. Tillögurnar munu því ekki ná markmiði frumvarpsins sem er að auka refsivernd barna sem verða fyrir kynferðisafbrotum því þau munu áfram fyrnast og í grófum dráttum má segja að einungis sé verið að lengja fyrningarfrest um fjögur ár. Auðvitað fögnum við þeirri lengingu í sjálfu sér en hún bara mætir ekki þörfum þessa stóra hóps. Hún viðurkennir ekki sérstöðuna sem er að baki þessara brota. Um það snýst málið. Þetta er hagsmunamat eins og ég kem síðar að.

Í núverandi refsilöggjöf fer lengd fyrningarfrests eftir lengd hámarksrefsingar sem lögð er við viðkomandi broti. Eins og ég hef sagt áður fyrnast kynferðisafbrot gegn börnum frá 5 árum til 15 ára.

En það eru til afbrot sem eru ófyrnanleg. Það eru brot sem eru landráð, brot gegn stjórnskipan ríkisins, brot gegn æðstu stjórnvöldum þess, hryðjuverk, manndráp, mannrán og ítrekuð rán. Þetta eru afbrot í íslenskri löggjöf sem fyrnast aldrei. Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að löggjafinn hefur nú þegar tekið þá pólitísku ákvörðun að hafa sum afbrot ófyrnanleg. Þess vegna felst ekki í frumvarpinu einhvers konar frávik í refsiréttinum eða brot á meginreglum hans eða eitthvað slíkt. Við höfum ófyrnanleg brot nú þegar svo sem ítrekuð rán. Við viljum einfaldlega að kynferðisafbrot gagnvart börnum verði þarna einnig undir.

Það er líka fróðlegt að rifja upp að fram á níunda áratuginn voru mjög mörg brot í íslenskri löggjöf ófyrnanleg og mörg þeirra voru með lága hámarksrefsingu, voru sem sagt ekki með ævilangt fangelsi. Það er því bara pólitísk ákvörðun, refsipólitísk ákvörðun hvaða leið við förum í þessu.

Margs konar röksemdir eru fyrir reglum um fyrningu, svo sem hagkvæmis- og sanngirnisrök. Auk þess liggur í hlutarins eðli að erfiðara verður að sanna brot eftir því sem lengri tími líður frá því það var framið. Það getur hins vegar ekki talist sjálfstæð röksemd gegn afnámi fyrningarfrests vegna kynferðisafbrota gegn börnum undir 14 ára aldri að erfiðara verður að sanna það eftir sem lengri tími líður. Sönnun í slíkum málum hefur hingað til alltaf verið erfið og hún verður erfið áfram þrátt fyrir afnám fyrningarfrestsins. Sönnun í svona málum er oft flókin. En það kemur ekki í veg fyrir að við setjum lög til að bregðast við þessum brotum. Sönnunarbyrðin verður að sjálfsögðu eftir sem áður á ábyrgð hins opinbera ákæruvalds, samanber lög um meðferð opinberra mála. Ákæruvaldið mun meta hvort það sem fram er komið sé nægjanlegt eða líklegt til sakfellis, samanber 112. gr. laga um meðferð opinbera mála.

Hins vegar má auðvitað telja að vitneskja um að sönnun verði erfiðari eftir sem lengri tími líður muni hvetja brotaþola til að leita úrræða sem fyrst en dragi það ekki í óþarflega langan tíma, en sérstaða þessara brota er að fólk leitar sér aðstoðar svo seint af ýmsum ástæðum eins og hér hefur verið rakið. Það verður einnig að teljast vera afar hæpin röksemd gegn afnámi fyrningarfrests að slíkir frestir virki sem aðhald fyrir rannsóknaraðila og ákæruvaldi um hröð vinnubrögð. Það hefur heyrst m.a. frá fræðimönnum að fyrningarfrestir virki sem aðhald. Ég vísa þessu algerlega á bug. Ég tel að barn undir 14 ára aldri eigi ekki að líða fyrir slíkt markmið. Sömuleiðis má ekki gleyma því að nú þegar er lagalegur áskilnaður um málshraða á rannsóknaraðilum og ákæruvaldinu. Rannsóknaraðilum og ákæruvaldi ber að hraða rannsókn máls eins og kostur er. Fyrningarreglur hafa enga þýðingu í því sambandi. Þessi áskilnaður er nú þegar til staðar.

Það er einnig fráleitt að telja að löggæsluaðilar muni ekki sinna þessum brotum af sama krafti og þeim er ætlað verði þau ófyrnanleg. Þetta hefur einnig heyrst í umræðunni, þ.e. að lögreglan muni slugsa við þessi mál þar sem þeir hafi bara nægan tíma. Eins og áður hefur verið nefnt eru mörg afbrot í íslenskum rétti ófyrnanleg, svo sem manndráp, og það er ekki hægt að benda á að löggæsluaðilar sinni þeim málum verr vegna fyrningarreglna þeirra. Lögreglan tekur mjög alvarlega manndráp, ítrekuð rán, hryðjuverk, brot gegn stjórnskipun ríkisins o.s.frv. Þessi brot hafa enga fyrningarfresti. Þeir eru ekki að slóra við rannsókn þessara mála vegna þess að það eru engir fyrningarfrestir. Sama á við í þessum málum. Að sjálfsögðu lítur lögreglan á kynferðisafbrot gegn börnum alvarlegum augum. Þetta er sömuleiðis alveg fráleit röksemd gegn samþykkt þessa frumvarps.

Víða í löggjöfinni er tekið tillit til sérstöðu barna og það gerum við flutningsmenn þessa frumvarps í þessu tilviki. Alls staðar á Norðurlöndum, nema í Finnlandi, hafa verið teknar upp sérreglur er varða fyrningu kynferðisafbrota gegn börnum. Því yrði jafnvægi eða meginreglum almennra hegningarlaga ekki raskað með nokkru móti með samþykkt þessa frumvarps. Við höfum margs konar lagaákvæði sem taka sérstaklega á börnum. Það er viðurkennt að við viljum hafa slíkt. Það er nú þegar viðurkennt með þeirri reglu að fyrningarfrestir líði frá 14 ára aldri þolandans. Það er viðurkennt að það er tekið tillit til barna með hliðsjón af fyrningu. Við viljum hins vegar ganga lengra í ljósi þeirrar tölfræði, í ljósi þeirra dóma og í ljósi þeirrar sérstöðu sem þessir glæpir hafa.

Flutningsmenn þessa frumvarps telja að taka verði aukið tillit til barna sem þolenda kynferðisbrota svo að unnt sé að tryggja börnum tilhlýðilega refsivernd að þessu leyti. Þetta er m.a. skylda gagnvart barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við þurfum og eigum að tryggja börnum tilhlýðilega refsivernd. Ég tel hana ekki fullnægjandi á meðan kynferðisafbrot fyrnast. Í ljósi allrar þeirra þekkingar sem við höfum á þessum brotum og þeirri stöðu og þeim raunveruleika sem er á bak við þolandann teljum við einfaldlega að sérstaða kynferðisafbrota gegn börnum undir 14 ára aldri og hagsmunir þeirra vegi þyngra en þau hagkvæmis- og sanngirnisrök sem búa almennt séð að baki reglum um fyrningarfrest. Þetta er bara hagsmunamat. Það eru ákveðin rök fyrningu. Sömuleiðis hafa menn hagsmuni að því hafa enga fyrningu í kynferðisafbrotum gegn börnum og það bara vegur einfaldlega þyngra. Við getum alveg farið þá leið. Ég tel að við eigum að fara þá leið.

Það er einfaldlega, að mínu mati, rangt í eðli sínu að kynferðisafbrot gegn börnum geti fyrnst. Mér finnst líka rangt að manndráp geti fyrnst. Vegna eðlis og sérstöðu þessara brota verður því að telja að með fyrningarfresti í þessum málum sé börnum einfaldlega ekki tryggð nægileg réttarvernd og réttlæti samkvæmt lögum.

Ég vona að þingheimur fái tækifæri til að greiða atkvæði um þetta mál þannig að það sofni ekki í nefnd eins og það gerði fyrst, hvað þá að nefndin afgreiði þetta frá sér þannig að það verði afgreitt í þingsal sem er mjög óvanalegt af hálfu þingsins, þ.e. að afgreiða þingmannafrumvörp. En mér finnst mikilvægt að þingheimur fái tækifæri til að taka afstöðu til málsins, geri það ekki eingöngu á nefndarfundum eða í fjölmiðlum. Við viljum fá það á hreint í atkvæðagreiðslu hvort meiri hluti sé fyrir að fara þessa leið, taka umræðuna í þingsal því komið hefur verið í veg fyrir það í tvö skipti. Einu sinni sofnaði málið í nefnd. Í seinna skiptið ákvað þáverandi forseti, Halldór Blöndal, að setja málið einfaldlega ekki á dagskrá á síðustu dögum þingsins þrátt fyrir að allsherjarnefnd hefði afgreitt málið. Það er augljóst að undanfarin tvö ár hafa sjálfstæðismenn ekki viljað fá þetta mál til afgreiðslu. En ég vona núna að þeir taki það til afgreiðslu, afgreiði það frá hv. allsherjarnefndinni þannig að við tökum þessa umræðu. Vonandi verður þá hægt að ræða þetta í samanburði einmitt við frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra sem að mínu mati gengur bara einfaldlega of skammt. Því það frumvarp lengir eingöngu fyrningarfrestinn um fjögur ár. Það er ekki ásættanlegt að mínu mati. Þetta snýst um hagsmunamat. Þetta snýst um refsipólitík. Þetta snýst um að veita börnum þessa lands þá réttarvernd sem er sanngjörn samkvæmt eðli máls.