132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Almenn hegningarlög.

209. mál
[12:52]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Herra forseti. Við erum að ræða hér frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum varðandi fyrningarfrest á kynferðisafbrotum. Við erum sem sagt að ræða hér um morð, sálarmorð. Ég vil taka undir allt það sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson sagði í flutningsræðu. Það er rétt að Samfylkingin og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hafa lagt þetta fram áður, en af einhverjum ótrúlegum ástæðum hefur málið verið svæft eins og hv. frummælandi kom vel inn á. Hvers vegna, veit ekki sá er hér stendur, enda nýr í bransanum. En kannski er það vegna þess að það er Samfylkingin sem leggur frumvarpið fram. Eins og sjá má núna er ekki einn einasti stjórnarliði mættur í þingsal til að ræða þetta mjög svo mikilvæga mál. Ég velti því fyrir mér hvers vegna stjórnarmeirihlutinn sé á móti því að afnema fyrningarfrest í kynferðisafbrotamálum. Það hefur ekki komið fram. Hér var farið yfir þau rök sem reynt var að toga inn í málið á síðasta þingi.

Eins og gildandi fyrningarfrestsreglur eru núna koma fá mál til dóms. Ég velti fyrir mér hvort stjórnarmeirihlutinn hreinlega trúi því ekki að þetta vandamál sé til í þjóðfélaginu, hvort meiri hlutinn ætli sér hreinlega að afneita því að kynferðisafbrot séu til í þjóðfélaginu. Vegna áhrifa brotsins á sálarlífið, vegna þess að þetta er hreint sálarmorð, þá leita þolendur sér seint aðstoðar og þá helst hjá Stígamótum og jafnvel enn seinna til dómstóla. Brot eins og mannrán fyrnast ekki. Brot eins og morð fyrnast ekki. En hvað með sálarmorðin? Hvers vegna fyrnast þau? Kynferðisofbeldi gagnvart börnum er ekkert annað en sálarmorð.

Herra forseti. Þar sem ég efast um að meiri hlutinn annars vegar trúi og hins vegar skilji að þetta fyrirbrigði, þessi mikla skömm sé til í þjóðfélaginu þá ætla ég að leyfa mér að vitna í manneskju sem hv. frummælandi Ágúst Ólafur Ágústsson vitnaði til áðan. Ég er að tala um sögu Thelmu Ásdísardóttur sem varð fyrir miklu kynferðisofbeldi af hálfu föður síns og félaga hans. Ég ætla að fá að lesa aðeins upp úr þessari bók í þeim tilgangi að reyna að koma hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í skilning um að þetta sé til og hvað fólk sem lendir í kynferðisofbeldi á við að eiga. Við erum þar komin sögu að Thelma Ásdísardóttir fer til Stígamóta að leita sér hjálpar og hér segir, með leyfi forseta:

„Það sem sló mig hvað mest í hópavinnunni var hversu oft nöfn sömu mannanna bar á góma. Sumir þeirra höfðu skilið eftir sig langa slóð ofbeldisverka en enginn hafði hlotið dóm fyrir glæpina sem þeir höfðu gerst sekir um því þegar konurnar höfðu loksins öðlast nægan styrk til að geta hugsað sér að kæra voru glæpirnir löngu fyrndir. Ár eftir ár hittast hópar kvenna til að endurheimta sjálfsmyndina og stappa stálinu hver í aðra á meðan ofbeldismenn þeirra leika lausum hala. Þeir koma hnarreistir til vinnu hvern morgun, spila stundum innanhúsfótbolta í hádeginu og koma við í fiskbúð á leiðinni heim. Þetta virðast heilbrigðir menn en þegar enginn sér til níðast þeir á litlum börnum. Stundum virðist dómskerfið hafa verið sniðið fyrir þá en ekki fórnarlömbin. Pabbi minn hafði að minnsta kosti sloppið ótrúlega vel undan armi laganna.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Það verður líka alltaf erfitt að ætlast til sanngjarnra dóma yfir glæpum sem eru svo voðalegir að enginn trúir því að nokkur maður geti framið þá.“

Hæstv. forseti. Ég held að þessi orð séu akkúrat kjarni málsins. Menn trúa því hreinlega ekki að þetta sé til og hins vegar er svo að þessi sálarmorð, þessi andlegu morð, fyrnast áður en þolandinn skynjar að hann eða hún hafi ekkert brotið af sér sjálf heldur að brotið hafi verið á þeim. Það þarf að vinna sig út úr því og síðan þarf að draga í sig kjark til að reyna að fá níðinginn dæmdan. Í þessari bók kemur skýrt fram, í þessari sönnu sögu, að því miður ganga barnaníðingar lausir vegna fyrningarfrests í lögunum og þegar þolandinn loksins dregur í sig kjark og þor til að segja frá eða að reyna að fá dæmt þá er kynferðisglæpamaðurinn þegar búinn að leggjast á næstu kynslóð.

Ég trúi því og treysti, herra forseti, að stjórnarmeirihlutinn taki alvarlegar á þessu máli heldur en hingað til og sameinist með Samfylkingunni í að samþykkja þetta frumvarp.