132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Almenn hegningarlög.

209. mál
[12:59]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Herra forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum. Það snýst um að afnema fyrningarfrest í málum er varða kynferðisafbrot gegn börnum. Ég tek auðvitað heils hugar undir frumvarpið og þakka hv. flutningsmanni Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir að koma með þetta mál í sali Alþingis. Þegar maður les yfir greinargerðina og sér að öll þessi samtök, Samtök um kvennaathvarf, Femínistafélagið, Mannréttindaskrifstofa Íslands, átakshópurinn Blátt áfram, Barnaverndarstofa, umboðsmaður barna og barnaverndarnefnd Reykjavíkur, svo einhver séu nefnd, taka heils hugar undir þetta og hvetja til þess að frumvarpið verði samþykkt þá verður maður að lýsa yfir furðu sinni á því að meiri hluti allsherjarnefndar hafi ekki tekið jákvætt í þetta, þ.e. að þetta verði bara samþykkt óbreytt. Auðvitað er hæstv. dómsmálaráðherra að stíga stórt skref með því að lengja fyrningarfrestinn. En það er alvarlegt mál að hann sé ekki alveg felldur niður. Ég vona að þetta frumvarp fái skjóta afgreiðslu í þinginu.