132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar.

[13:36]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Í gær varð þjóðin vitni að því þegar forstjórar Alcoa-álhringsins lýstu því yfir hvar þeir áformuðu að reisa álver á Íslandi. Húsavík hefði orðið fyrir valinu. Þetta gerðu þeir í viðurvist Valgerðar Sverrisdóttur, hæstv. iðnaðarráðherra, sem komin var til New York að boði Alcoa að taka við boðskap þeirra, ásamt íslenskum sveitarstjórnarmönnum. Að sögn Valgerðar hafði forstjóri Alcoa aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum — það er örugglega rétt. Að erlendum fyrirtækjum skuli sett algert sjálfdæmi um stór og afdrifarík mál af þessu tagi sem hafa gríðarleg áhrif, ekki bara á viðkomandi svæði heldur á náttúru og efnahag landsins alls er örugglega séríslenskt fyrirbæri bundið við ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Athöfnin ytra var dapurleg en táknræn um leið fyrir niðurlægingu lands og þjóðar á grundvelli stefnu ríkisstjórnarinnar.

Í yfirlýsingu Alcoa frá í gær segir, með leyfi forseta:

„Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagði á fréttamannafundi í New York að staðarvalið væri mikilvægur áfangi í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.“

Það er nefnilega það. Er það sem sagt áframhaldandi óbreytt stefna ríkisstjórnarinnar að hér skuli byggja öll þau álver sem hægt er að lokka erlenda auðhringa til að reisa hvað sem það kostar annað atvinnulíf og þó að efnahagslegum stöðugleika sé þar með stefnt í enn meiri voða en ella?

Nú er það svo að mjög misvísandi skilaboð eru tekin að berast frá ríkisstjórninni. Í ræðu Geirs H. Haardes, hæstv. utanríkisráðherra, um daginn, „þá og því aðeins ræðunni“, var hver varnaglinn sleginn á fætur öðrum. Hæstv. umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, sagði í framhaldi af samkomulagi Landsvirkjunar og Alcan á dögunum, um að hefja viðræður um orkusölu til stækkunar álversins í Straumsvík, að ekki væri pláss fyrir meira en eitt álver í viðbót innan ramma Kyoto-skuldbindinganna. Hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, sagði að vísu norður í landi nokkrum dögum síðar að ekkert væri að marka umhverfisráðherrann og orð hennar.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra, Einar K. Guðfinnsson, hrúgar líka upp fyrirvörum. Í grein sem hann birtir á heimasíðu sinni í gær ítrekar þessi ráðherra Sjálfstæðisflokksins varnaðarorð sín.

Hann segir, með leyfi forseta:

„Svo er líka nauðsynlegt að slá varnagla. Engar þær framkvæmdir sem hafa verið í umræðunni eru ákveðnar.“

Síðar segir hann: „… það er fráleitt að tala, eins og stundum er gert, að yfir okkur sé að hellast á morgun eitthvað óskaplegt magn nýrra álversframkvæmda. Það er því rétt að menn andi nú rólega.“

Hæstv. forseti. Vissulega má með sanni segja að alltaf sé rétt að anda rólega og sýna yfirvegun. En svo rólegir í tíðinni mega menn ekki verða að þeir sýni andvaraleysi og sofandahátt. Það er staðreynd að verið er að stefna í stórfellda áframhaldandi uppbyggingu stóriðju í landinu á komandi árum. Lítum á eftirfarandi staðreyndir:

Viðræður eru að fara af stað á milli Landsvirkjunar og Alcan um stækkun, í reynd nýtt álver í Straumsvík með framleiðslu upp á hátt í 300 þús. tonn. Viljayfirlýsing gærdagsins er um 250 þús. tonna álver við Húsavík hið minnsta. Reyndar lýsti forstjóri Alcoa því strax yfir að hugur þeirra stæði til stærra álvers af Reyðarfjarðarstærðinni, sem sagt 350 þús. tonn eða þaðan af meira. Vaknar þá spurning um hvaðan öll sú orka á að koma og hvað felst í orðalaginu „gufuorka að mestu leyti“ eins og segir í yfirlýsingum frá Alcoa. Á að sækja viðbótina í Skjálfandafljót, Héraðsvötn eða hvað?

Í útvarpsfréttum í morgun staðfesti svo bæjarstjórinn í Reykjanesbæ að áform um 250 þús. tonna álver í Helguvík eru einnig á fullri ferð og þar telja menn sig ekkert þurfa við ríkisstjórnina að tala, það þurfi enga framsóknarráðherra að senda til útlanda vegna þess verkefnis. Þetta gerist við þær aðstæður að varnaðarorðum rignir yfir úr öllum áttum. Nefna má málsmetandi menn úr atvinnulífinu eins og Ágúst Guðmundsson, stjórnarformann Bakkavarar og Hörð Arnarson, forstjóra Marels. Alþjóðleg matsfyrirtæki lýsa miklum áhyggjum og hafa sum breytt mati sínu á horfum þjóðarbúsins úr stöðugum í neikvæðar, eins og kunnugt er.

Hvað gerir ríkisstjórnin við þessar aðstæður? Hún hellir meiri olíu á eldinn og afleiðingarnar láta ekki á sér standa. Bara væntingarnar um fréttir gærdagsins hækkuðu gengi krónunnar í fyrradag, lækkuðu þar með á nýjan leik tekjur sjávarútvegsins og ferðaþjónustunnar, lækkuðu kaup íslenskra sjómanna. Sjálfstæðisflokkurinn og Morgunblaðið í leiðara í dag reyna að slá á væntingar. En er það nóg? Fríar það Sjálfstæðisflokkinn af allri ábyrgð að setja slíka fyrirvara? Sá tími er liðinn að mínum dómi að Sjálfstæðisflokkurinn geti leyft sér að sitja á áhorfendabekkjunum í þessu risavaxna hagsmunamáli þjóðarinnar.

Hæstv. forseti. Spurningar mínar til hæstv. forsætisráðherra eru þessar: Hver er framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar varðandi uppbyggingu álvera hérlendis, nýrra eða stækkun þeirra? Ætlar ríkisstjórnin að hleypa þremur nýjum risavöxnum álverksmiðjum með tilheyrandi virkjunum af stað (Forseti hringir.) á næstu 3–5 árum? Ef ekki, hvernig ætlar þá ríkisstjórnin að stýra hlutunum? Hefur hún sett einhverja (Forseti hringir.) fyrirvara gagnvart þeim aðilum sem nú undirbúa málin sem hægt er að grípa til ef allir vilja nú fara af stað í einu? Og hverju svarar ríkisstjórnin þeim varnaðarorðum, innlendum sem erlendum, sem sífellt fjölgar og ganga út á að óbreytt (Forseti hringir.) sigling gangi ekki upp og hljóti að enda með ósköpum?

(Forseti (BÁ): Forseti vill áminna þingmenn um að virða takmarkaðan ræðutíma í þessum umræðum.)