132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar.

[13:54]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst hvert stefnir. Af máli hæstv. forsætisráðherra má auðvitað ráða að það eigi ekki að gefa neitt eftir í þessum málum. Það er ljóst að álversframkvæmdir á Húsavík og möguleg stækkun í Straumsvík og að öllum líkindum hin frjálsu viðskipti á Suðurnesjum, eins og bæjarstjóri Reykjanesbæjar kallaði það í morgun varðandi álver í Helguvík ganga öll eftir. Það er líka ljóst að álveri á Húsavík er ekki ætlað að taka til starfa fyrr en eftir 2012 eða eftir fyrsta skuldbindingartímabil Kyoto-bókunarinnar, eftir að því tímabili er lokið.

Ég verð að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvaða losunarheimildir ætlar hann að vera búinn að sækja í rann loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna fyrir þann tíma? Það er alveg ljóst að álver blása meiru út í loftið en koltvísýringi. Koltvísýringurinn er það eina sem er undanþegið í bókunarákvæðinu okkar, hinu íslenska ákvæði. Það eru PSC-efnin ekki og íslensk stjórnvöld eru að gera sér vonir um að álverin sem við erum að reisa hér geti takmarkað útstreymi sitt á PSC-efnunum en ég sé ekki að allt þetta eigi að ganga eftir. Ég sé ekki hvernig hæstv. forsætisráðherra ætlar að láta þetta ganga upp á sama tíma og það er ljóst að Alcoa er að reisa álver í Fjarðabyggð sem losar 12 kíló af brennisteinsdíoxíði á hvert brætt áltonn á sama tíma og Alþjóðabankinn lánar ekki út á verkefni sem fara yfir eitt kíló brennisteinsdíoxíði á hvert brætt áltonn. Hér hangir því svo margt á spýtunni og það er svo flókið að sjá hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að láta þessi áform ganga eftir.

Síðan má náttúrlega nefna það að fréttatilkynning sú sem gefin var út frá Alcoa í gær gefur það auðvitað til kynna að stjórnvöld róa hér á bak við. Þetta er allt merkt og stimplað af stjórnvöldum í bak og fyrir, öll þessi áform, þannig að þetta er framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í álversuppbyggingum.