132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar.

[13:56]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Ég byrja á því að fagna þeim áfanga sem náðist í gær þegar gengið var frá samningi milli ríkisstjórnarinnar og Alcoa um undirbúning að byggingu álvers við Húsavík og ég lýsi þeirri von minni að af þeim framkvæmdum verði.

Andstæðingar uppbyggingar atvinnulífs á þessu sviði finna álverum flest til foráttu. Skemmst er að minnast geðillskunnar sem gaus úr munni foringja Vinstri grænna í gær og sendir hann m.a. flokksfélögum sínum á Norðurlandi tóninn vegna stuðnings þeirra við málið þannig að það er greinilegur klofningur á þeim bænum.

Því er haldið fram að stórframkvæmdirnar á Austurlandi séu meginorsök þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í íslensku efnahagslífi og séu að ganga að útflutningsgreinunum nánast dauðum. Þetta er auðvitað alrangt og hreint áróðursbragð. Það liggur fyrir að áhrif framkvæmdanna eru lítil í efnahagslegu tilliti, aðrir þættir hafa þar mun meiri áhrif. Það er ljóst að mikil umsvif á fjármálamarkaði eru megináhrifavaldur í þessu efni.

Eftir áralanga stöðnun í atvinnulífi landsmanna var á sínum tíma ráðist í uppbyggingu Norðuráls í Hvalfirði. Sú framkvæmd réði hvað mestu um það að hjól atvinnulífsins fóru að snúast á nýjan leik og upp frá því urðu miklar framfarir í efnahags- og atvinnulífi. Við höfum haldið áfram á þeirri braut með öðrum verkefnum og nú hillir undir framhald á því með álveri við Húsavík. Ef af verður munu framkvæmdirnar á Húsavík ekki hefjast fyrr en árið 2010 — þær munu ekki hefjast á morgun.

Ýmsir hafa haft efasemdir um efnahagskerfið að það þoli þá framkvæmd en ég er þess fullviss að slíkar áhyggjur eru ástæðulausar. Með framkvæmdinni sjáum við fram á áframhaldandi góðan hagvöxt í allmörg ár og auknar útflutningstekjur varanlega til framtíðar.