132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar.

[13:58]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Ég fagna ákvörðun um ítarlega könnun á hagkvæmni þess að byggja stóran vinnustað á Norðurlandi og nýta jarðorku svæðisins til þess og tel að valið á Bakka við Húsavík sé skynsamlegasti kosturinn út frá atvinnu- og byggðasjónarmiðum. Tímaramminn er líka heppilegur og góður út frá stöðu efnahagsmála og öðrum tímasettum stórframkvæmdum sem flestar hverjar verða á höfuðborgarsvæðinu næstu árin og fram að hugsanlegri álversbyggingu á Húsavík. Mikil samstaða Húsvíkinga og nágranna skiptir auðvitað sköpum og það er líka mikilvægt að atvinnurekendur finni sig velkomna á viðkomandi svæði. Ef af þessu verður mun þetta hafa gríðarlega jákvæð áhrif á byggðaþróun í Þingeyjarsýslu og nágrenni og teygja anga sína til Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðisins alls með tilkomu Vaðlaheiðarganga vonandi á næstu árum. Þetta verkefni snertir því stóran hluta Norðurlands.

Virðulegi forseti. Útblástur gróðurhúsalofttegunda er orðin „ný auðlind“ innan gæsalappa og meira að segja takmörkuð auðlind ef svo má að orði komast. Þessari auðlind á því að skipta sem jafnast milli landshluta og landsmanna enda sameiginleg eign okkar allra. Einn þriðja hluta af þessum kvóta okkar er eytt hérna á höfuðborgarsvæðinu, bæði Straumsvík og í Hvalfirði. Svipuðum hluta verður eytt fyrir austan með tilkomu Fjarðaráls. Þá er u.þ.b. einn þriðji hluti eftir sem ég tel að eigi að koma í hlut Norðlendinga og fellur Húsavíkurverkefnið þar vel að.

Að lokum þetta, virðulegi forseti: Ég tel og vona að þessi ákvörðun verði til þess að sætta ólík sjónarmið og að sátt geti myndast um þessa framkvæmd milli náttúruverndarsinna og þeirra sem vilja efla landsbyggðina og sporna gegn frekari náttúruspjöllum með áframhaldandi fækkun íbúa landsbyggðarinnar. Ég fagna því líka, virðulegi forseti, að ýmsir ráðherrar eru farnir að draga í land hvað varðar fjölda álvera sem á að byggja hér á næstu árum. Það eru mikilvæg skilaboð inn í efnahagslíf landsmanna.