132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar.

[14:00]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það var mikil gleði og ánægja á Húsavík í gær þegar Alcoa kynnti staðarvalsákvörðun sína. Lagið New York, New York var spilað á mikilli hátíð Þingeyinga í tilefni af því að ríkisstjórn Íslands og Alcoa hafa undirritað samkomulag í New York um að hefja ítarlega könnun á hagkvæmni þess að reisa nýtt 250 þús. tonna álver á Bakka við Húsavík.

Í framhaldinu verðum við að vona að það gangi vel að semja um orkuverð. Það ætti að geta legið fyrir í haust. Rannsóknarholur verða boraðar í sumar sem nýtast munu væntanlegri virkjun. Á næstu þremur árum munu svo fara fram rannsóknir og undirbúningur sem hleypur á milljörðum ef tekst að semja um orkuverðið. Það eitt mun strax hafa mikil áhrif á öll umsvif á Norðurlandi. Helmingur orkuafhendingarinnar á að geta farið fram 2012 og næsti áfangi er svo 2015. En hvernig sem á það er litið mun fara í gang á Norðurlandi mikið uppbyggingartímabil sem mun taka yfir næstu tíu ár ef vel tekst til um orkusamninga. Orkan verður jarðvarmaorka og það ætti að kæta þá sem mest hafa barist gegn vatnsaflsvirkjunum.

Sú bjartsýni og framkvæmdagleði sem fylgir ákvörðunum þeim sem þegar er búið að taka er strax farin að segja til sín á Húsavík eins og komið hefur fram í fréttum hvað varðar ásókn í fasteignir með tilheyrandi hækkunum á fasteignaverði. Álver eru góðir vinnustaðir, það sýnir sig af reynslunni í Straumsvík og á Grundartanga. Það þýðir ekkert að hrista höfuðið yfir því, þannig er það. (Forseti hringir.) Starfsmannaveltan í þessum fyrirtækjum segir sína sögu.