132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar.

[14:05]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Sjaldan mun eins mikið hafa verið haft við og í þessari utanför til New York af hálfu íslenskra stjórnvalda. Það var ekki einvörðungu svo að með í för væru sveitarstjórnarmenn að beiðni ríkisstjórnarinnar heldur voru allir æðstu yfirmenn í iðnaðarráðuneytinu í föruneyti ráðherrans. Og það finnst forsætisráðherra Íslands hið besta mál að þessi hópur skuli taka við skipunum, krjúpandi við borð auðhrings í New York. Mér finnst ákaflega dapurlegt að hlýða á þessa umræðu.

Ekkert hefur breyst, segir ráðherrann enn fremur. Við erum sem sagt enn þá með á borðinu álstefnu Framsóknarflokksins, að fara úr 300 þús. tonna framleiðslu í 1,5 milljónir, ekkert hefur breyst. Engin tíðindi, segir síðan fjármálaráðherra, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, við þessa umræðu, engin tíðindi.

Ég get fullvissað hann um það að mönnum þykja þetta tíðindi í íslenskum sjávarútvegi og mönnum þykja þetta tíðindi í tæknifyrirtækjunum sem eru að hrökklast úr landi vegna þessarar stefnu. Íslenskum sjómönnum þykja þetta tíðindi, hæstv. fjármálaráðherra, því að með þessum yfirlýsingum einum lækkuðu tekjur þeirra við gengisbreytingarnar í gær. Þetta eru staðreyndir og þetta þykja Íslendingum vera tíðindi þótt menn séu hér sofandi.

Við erum ekki á áhorfendabekkjunum, segir hæstv. fjármálaráðherra. Við héldum það mörg að Sjálfstæðisflokkurinn hefði setið á áhorfendabekkjunum en þó að Framsókn dragi álvagninn þá er það svo að þegar Sjálfstæðisflokkurinn segir stopp þá stöðvast sá vagn. Og nú höfum við fengið það staðfest frá Sjálfstæðisflokknum að þetta er allt saman með hans blessun.

Að lokum þetta, (Forseti hringir.) hæstv. forseti: Við stöndum frammi fyrir valkostum. (Forseti hringir.) Spurningin er ekki um störf, heldur hvar störfin eru búin til. Viljum við (Forseti hringir.) fjölbreytni á Íslandi eða viljum við setja alla í stóriðjuálið?