132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar.

[14:07]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Svo að því sé nú haldið til haga þá er viðskiptaráðstefna í New York sem m.a. mun hafa verið tilefni þess að hæstv. viðskiptaráðherra er þar staddur.

Mér finnst þetta hafa verið afskaplega athyglisverð umræða. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem er nú hér í hliðarsal, vill fresta þessu öllu saman. Síðan kemur hv. þm. Kristján Möller og vill engu fresta. Af hverju á að fresta öllu saman? Hvað er verið að tala um að nýta? Það er verið að tala um að virkja í Þjórsá virkjanir sem þegar hafa farið í gegnum umhverfismat. Það er verið að tala um að virkja við Kröflu og í Bjarnarflagi og rannsaka svæðið á Þeistareykjum. Af hverju þarf að fresta því? Hver er ástæðan fyrir því að það þarf að fara að fresta því?

Við þurfum hins vegar að svara þessari spurningu: Erum við tilbúin til þess að sætta okkur við að hagvöxtur verði hér á næsta kjörtímabili — og mér skilst að það séu nú ýmsir sem ætli að komast til valda þá — á bilinu hálft til eitt prósent lægri að meðaltali ef ekkert verður af neinum þessara framkvæmda? Erum við tilbúin til þess að sætta okkur við það að tekjur ríkissjóðs verði 10–15 milljörðum lægri? Ég býst við því að það standi í hv. þingmönnum. Nei, það stendur ekki í öllum. Sennilega er þá hv. þingmaður, og hv. þingmenn Vinstri grænna líka, tilbúinn til að sætta sig við vaxandi atvinnuleysi á næsta kjörtímabili. Það er ekki hægt að dæma allt út frá (Gripið fram í.) deginum í dag.

Ég sagði hér, hv. þingmaður, að þetta væri spurningin um 2.000–2.500 störf. Það þýðir ekki að koma hér skipti eftir skipti og segja: Við verðum bara að gera eitthvað annað. Þá verður hv. þingmaður að koma hérna einhvern tíma og skýra frá því hvað það er.