132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Vextir og verðtrygging.

173. mál
[15:32]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil með örfáum orðum taka undir umsögn Neytendasamtakanna sem mæltu með því að frumvarp þetta yrði samþykkt og taka líka undir þau orð sem viðhöfð eru í greinargerð þar sem vitnað í ummæli flutningsmanns, væntanlega, og hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Að mínum dómi stendur slagurinn því ekki um að berjast gegn verðtryggingu sem slíkri heldur klyfjum okurlánastefnu almennt.“

Ég var nefnilega að opna póstinn minn í gær og þar var að finna lífeyrissjóðslán sem ég tók 1986. Ég stóð þá í húsbyggingu og þurfti á þessu láni að halda, það var að upphæð 500 þús. kr. Eftir stendur af þessu láni fimm ára tími. Ég er að greiða af því um 90–95 þús. kr. á ári og hef vafalaust greitt hærra hlutfall á þeim tíma sem verðbólgan var örust fyrir mörgum árum. Eftir standa af þessu láni 20 árum síðar 360 þús. kr. af 500 þús. kr. sem segir mér að á þessu tímabili, ég hef ekki reiknað það nákvæmlega en mér telst til að það geti verið eitthvað vel á þriðju milljón sem ég er búinn að borga af þessu eina láni og enn þá skulda ég nánast alla upphæðina, að vísu allt aðrar krónur. En samt sem áður getur ekki verið alveg eðlilegt að nota þessi stýritæki, belti og axlabönd eins og talað er um, að vera bæði með verðbólgu og hávexti. Núna eru verðtryggð lán um og yfir 10%, þ.e. verðbólgan og vextir, og eins og komið hefur fram möguleiki á að breyta þeim jafnvel til hækkunar.

Ég tel að það mál sem hér kemur fram sé afskaplega þarft mál og eitt skref í því að lagfæra peningastefnu okkar örlítið til þess sem skynsemi má teljast.