132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Vextir og verðtrygging.

173. mál
[15:42]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Sú skoðun að vextir séu sending frá hinum vonda hefur meira að segja verið sett í lög sums staðar. Þetta var í gildi hjá múhameðstrúarmönnum á 12. og 13. öld. Þetta var líka í gildi hjá kristnum mönnum sums staðar en ég held að flestir séu horfnir frá þessari hugsun og líti á vexti sem leigu fyrir fé, þann arð sem menn geta haft af því að fá fé að láni til að fjárfesta. (PBj: Enda lýsti ég þessu ekki sem minni skoðun.) Nei.

Það að eitthvað hafi verið bogið við ástandið. Já, það var eitthvað bogið við ástandið. Þetta var á hendi ríkisins. Það voru ríkisbankar, það voru lífeyrissjóðir sem menn voru skyldaðir til að greiða í o.s.frv. Það var eitthvað bogið við ástandið. Eftir að bankarnir voru einkavæddir og þeim óx ásmegin urðu þeir svo öflugir að t.d. Kaupþing banki var kominn með sama lánshæfismat og ríkið og gat farið að bjóða lán í samkeppni við ríkið og þá lækkuðu vextirnir vegna samkeppninnar. Þetta hefði aldrei gerst ef bankarnir hefðu ekki verið einkavæddir. Það er mín trú. Það var eitthvað bogið við ástandið og það sem var bogið við það var að lánamarkaðurinn, fjármagnsmarkaðurinn, var mestallur á hendi ríkisins. Núna er það aðeins lítill hluti af honum, þ.e. Íbúðalánasjóður, og hann er hverfandi, hann er að minnka, ég ætla að vona að hann hverfi alveg þannig að landsmenn geti haldið áfram að njóta góðs af samkeppni á þessum markaði.