132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Vextir og verðtrygging.

173. mál
[15:52]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þannig háttaði til að ég gat ekki verið við umræðuna svo ég ákvað að stökkva inn í andsvar til að koma að fáeinum orðum um þetta frumvarp.

Ég vil almennt segja að ég tek undir það markmið frumvarpsins að draga úr vöxtum hér á landi. Í nýlegri skýrslu sem Neytendasamtökin létu taka saman á síðasta ári voru bornir saman vextir í tíu Evrópulöndum. Ísland var eitt af þeim. Í ljós kom, þar sem menn vita líklega, að vextir eru langhæstir hér á landi, svo nemur mörgum prósentustigum og allt upp í 7% var munurinn á milli okkar og þess lands af þeim tíu sem hafði lægstu vextina.

Þetta á við um íbúðalánin. Jafnvel þó að vextir íbúðarlána hafi verið lækkaðir fyrir rúmu ári eða einu og hálfu ári, niður í 4,15%, þá voru það vextir umfram verðtryggingu og að verðtryggingunni meðtalinni voru vextir enn langhæstir hér á landi af húsnæðislánum.

Við búum við fjármálakerfi sem af einhverjum ástæðum lánar peninga út fyrir hærra verð en nokkurt annað fjármálakerfi, a.m.k. í þeim tíu löndum sem tekin voru til samanburðar. Það er auðvitað mikið áhyggjuefni því að neytandinn borgar brúsann. Almenningur borgar þessa háu vexti. Almenningur sem skuldar um 1.000 milljarða kr. og hvert prósentustig er á hverju ári um 10 milljarðar kr. Ef við segjum að að meðaltali séu vextirnir um 4% hærri hér á landi en erlendis, þá eru það um 40 milljarðar kr. á ári sem íslenskur almenningur borgar í gjald fyrir að fá lánaða peninga, umfram það sem gerist að meðaltali í öðrum löndum.