132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Vextir og verðtrygging.

173. mál
[15:56]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að menn þurfi að leita leiða til að tryggja samkeppni á fjármálamarkaði frá erlendum aðilum. Mér fyndist það verðugt verkefni hjá íslenskum stjórnvöldum að vinna að því að fá erlend bankafyrirtæki til að bjóða fram þjónustu hér á landi í samkeppni við íslenska banka sem eru svo ofboðslega dýrir fyrir almenning hér á landi.

Í öðru lagi eiga menn að mínu viti að ganga í það verk að afnema verðtrygginguna. Hún er einfaldlega olían sem kyndir áfram vaxtabálið. Hún er tryggingin sem lánveitendur hafa til hárrar afkomu af útlánuðu fé. Verðtrygging er ekki regla erlendis. Hún er mjög óvíða þekkt. Hún er algjör undantekning. Hún var tekin upp hér á landi við mjög sérstakar aðstæður þegar verðbólga hafði um langt árabil verið mikil og sparnaður lítill því að hann brann upp vegna þess að ávöxtun var engin á hið takmarkaða sparifé.

Nú búum við við að við höfum mikið af sparifé, fyrst og fremst lífeyrissjóðanna. Það er það mikið að það er í raun meira en íslenskur markaður ræður við að ávaxta. Þess vegna fer drjúgur hluti þess til útlanda til ávöxtunar í verkefnum þar, sem út af fyrir sig er ágætt. En við þessar aðstæður er engin þörf á verðtryggingu. Íslenskir fjármálamenn verða einfaldlega, að mínu viti, að una því að fóta sig í að starfa í sams konar umhverfi og þeir sem starfa erlendis í sömu atvinnugreinum. Við þurfum ekki lengur að gefa þeim sérstaka tryggingu sér til halds og trausts.