132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Fullvinnsla á fiski hérlendis.

212. mál
[16:24]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um leiðir til að auka fullvinnslu á fiski hérlendis og hv. flutningsmaður, Jón Bjarnason, hefur gert allgóða grein fyrir þessu máli.

Ég vil byrja á því að vekja athygli aftur á orðum sem hann las hér áðan og ég held að þetta sé það mikið lykilatriði í þessu máli að með leyfi hæstv. forseta vil ég vitna í þetta aftur hér í greinargerð:

„Segja má að jafnræði íslenskra fiskkaupenda gagnvart erlendum fiskkaupendum, sem og samkeppnisstaða þeirra, sé skert að þessu leyti“ — þ.e. að eiga möguleika á að bjóða í fisk. „Þegar útflutningur á óunnum fiski er orðinn eins mikill og raun ber vitni hefur hann mjög neikvæð áhrif á möguleika fiskvinnslufyrirtækja til viðgangs og vaxtar. Þetta er sérstaklega bagalegt í því ljósi að virðisauki í vinnslu sjávarafurða hefur verið með mesta móti hjá þeim fyrirtækjum sem stunda fiskvinnslu án útgerðar auk þess sem þessi fyrirtæki hafa í mörgum tilvikum verið í fararbroddi við að vinna nýja markaði fyrir hágæða íslenskan fisk í hæsta verðflokki.“

Þarna er um lykilatriði að ræða og ég vek athygli á því að Frjálslyndi flokkurinn hefur frá upphafi haft á stefnuskrá sinni fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu og að með því móti verði sköpuð skilyrði til eðlilegrar verðmyndunar á óunnum fiski á markaði og stuðlað að heilbrigðari viðskiptaháttum í fiskviðskiptum. Vafalaust eru samkeppnisskilyrði miklu betri verði þessu komið á og það kemur fram hér í greinargerð að samþjöppun aflaheimilda, og ekki síður verðmyndun innan fyrirtækja, er algjörlega óeðlileg. Ég hef verið að heyra dæmi af því að sjómenn, sem eru á skipum sem eiga jafnframt útgerðarfyrirtæki, fá fasta greiðslu fyrir þann fisk sem landað er af fyrirtækinu og greiðslan er ekki hærri en það að undirmálsfiskurinn, sá sem ekki er talið borga sig af einhverjum ástæðum að vinna innan fyrirtækisins, er settur á markað. Fyrir hann, fyrir undirmálið, fæst jafnvel hærra verð en greitt er samningsbundið innan útgerðarinnar sjálfrar. Þetta segir nokkra sögu auk þess sem hér kom fram að það er ekki gefinn kostur á að bjóða í þennan fisk sem menn höndla svona milli handa innan fyrirtækja. Íslensk fyrirtæki eiga því miklu erfiðara um vik að bjóða í þennan afla, þeim er einfaldlega ekki gefinn kostur á því.

Þetta er mikið umhugsunarefni þegar hátæknifyrirtækin eru að flýja land af ýmsum ástæðum og við erum í stöðugt ríkari mæli að flytja út óunninn eða lítið unninn fisk. Ef til vill er það svo að í þjóðfélagi þar sem hagsæld ríkir og launakostnaður fer vaxandi er kannski erfiðara að fá verkafólk og það er ekki stefna sem menn vilja standa að að skapa hér einhverja útlenda láglaunastétt. En mér er spurn: Af hverju er ekki meiri stuðningur við það að hátæknifyrirtæki, sem við eigum mjög mörg frábær, komi þarna til skjalanna? Megnið af þeirri vinnslu sem fram getur farið í fiskafurðum getur nokkurn veginn verið án mannshandarinnar. Það hefur sýnt sig að það er hægt að gera þetta vélrænt að langmestu leyti. Ég held að það væri ráð að styðja hátæknifyrirtækin til þess að nýta tækni þeirra enn frekar er orðið er. Þau hafa að vísu gert heilmikið í þessum efnum og stóraukið sjálfvirkni í úrvinnslu.

Það er reyndar ekki bara fiskurinn. Hvað með áliðnaðinn sem er nú mjög til umræðu? — Ég heyrði nýyrði hjá hv. flutningsmanni sem er álæði? Maður hefur heyrt talað um málæði en það er alveg nýtt að heyra talað um álæði. Er það fullunnin vara sem við erum að vinna þar? Síður en svo. Þetta er eiginlega eins konar frumvinnsla. Maður veltir því fyrir sér hvort það sé eftirsóknarvert fyrir íslenskt þjóðfélag að vera fyrst og fremst frumvinnsluþjóðfélag sem framleiðir hráefni fyrir aðrar þjóðir til þess að vinna úr og auðgast á því. Við ættum frekar að skapa okkur sess sem þjóð sem vinnur sem allra mest verðmæti úr þeim hráefnum og þeim auðlindum sem hún hefur og flytur þau þannig út. Ég held að við ættum að reyna að nýta menntun okkar og tækni til að gera okkur meiri mat en við höfum gert úr þeim möguleikum sem hér eru til staðar, en ég tel æskilegt að kannaðar verði orsakir fyrir þeim mikla vanda sem þarna er á ferðinni.