132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Fullvinnsla á fiski hérlendis.

212. mál
[16:29]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er að vonum að menn flytji tillögur af þessu tagi og ég skil það vel þó svo að ég hafi þá skoðun að ekki þurfi kannski að leita orsakanna mjög fyrir þeirri stöðu sem er uppi. Ég vek athygli á að við höfum hér á undanförnum árum margsinnis flutt tillögu um aðskilnað veiða og vinnslu. En það er alveg ljóst að samkeppnisumhverfi í sjávarútveginum, þ.e. milli fiskvinnslu og útgerðar, hefur skekkst fyrst og fremst vegna þess að í þessu landi er blandað saman veiðum og vinnslu með þeim hætti að þegar upp er staðið taka þeir sem eiga útgerð og reka jafnframt fiskvinnslu til sín fiskinn inn í vinnsluna á 20–50 krónu lægra verði kílóið heldur en hinir fá hann á markaði. Þessi samkeppnisaðstaða hefur smám saman verið að eyðileggja möguleika fiskvinnslu án útgerðar á Íslandi sem náði sér á strik gegnum nýjungar, í gegnum útflutning á ferskum fiski og nýjungar í viðskiptum með fisk á markaði í löndunum í kringum okkur, sérstaklega úti í Evrópu en líka í Ameríku.

Þessi fyrirtæki standa núna í mjög erfiðri baráttu við þau fyrirtæki sem eiga aflaheimildirnar í landinu og hafa komið í kjölfarið á markaðssetningu þessara fyrirtækja inn á þessa markaði. Það sjá allir að það er ekki mjög þægileg samkeppnisaðstaða að berjast við aðila sem fá hráefnið á miklu lægra verði í hendurnar og geta líka stjórnað hráefninu til sín eins og þeir geta sem eiga líka útgerðina. Þessi samkeppnisaðstaða er í raun óverjandi. Það er eiginlega alveg furðulegt að stjórnvöld í landinu skuli ekki hafa viljað taka á þessu. Ég kem því hér á framfæri að við umfjöllun í sjávarútvegsnefnd um þetta nefndarfrumvarp sem ég talaði um hér áðan — þ.e. um aðskilnað veiða og vinnslu sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefur flutt hér ásamt mér og fleirum á undanförnum árum hvað eftir annað — við umfjöllun um það núna liggur t.d. fyrir bréf frá Samkeppnisstofnun þar sem tekið er undir að setja þurfi nefnd í að skoða samkeppnisumhverfið. Það verður fróðlegt að sjá hvort að þá verði svona að lágmarkinu til vilji til að skoða málin hér í framhaldi af þessari tillögu núna. Ég er ekki búinn að sjá fyrir endann á því.

En það er þetta sem skiptir að mínu viti mestu máli ef menn ætla sér að koma hér á einhverju eðlilegu samkeppnisumhverfi og þá mun það gerast af sjálfu sér að fiskur af Íslandsmiðum mun fara miklu meira í gegnum markaði en hann gerir núna. Það sem hefur gerst núna á undanförnum árum er að markaðirnir komu upp fyrst og smærri útgerðarmenn gripu þá fegins hendi. Síðan hafa stærri útgerðarmenn verið að kaupa til sín meira og meira af aflaheimildum sem smærri útgerðirnar hafa haft með yfirtökum og jafnóðum nánast hefur þessi fiskur horfið af fiskmarkaði. Umfang fiskmarkaðanna er því í besta falli að standa í stað og stundum hefur það dregist saman á undanförnum árum. Það er mjög vond þróun og núna eftir að stóru fyrirtækin komu inn á ferskfisksmarkaðinn með miklu afli eins og þau hafa verið að gera á undanförnum fimm til sjö árum eða svo þá sjáum við fyrirtæki sem hafa verið mjög vel rekin á undanförnum árum, fiskvinnslu án útgerðar sem hefur stundað útflutning, komin í mikla og erfiða vörn. Sterk staða krónunnar hefur svo flýtt fyrir þessari þróun sem er að verða. En hún er ekki aðalástæðan. Aðalástæðan er fyrst og fremst hin erfiða samkeppnisaðstaða sem í raun er gjörsamlega óviðunandi.

Síðan er ég algerlega sammála hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem vilja að þessi afli fari um markaði. Þeir eru ákaflega markaðssinnaðir í afstöðu sinni til þess hvernig eigi að nálgast fisk og hafa viðskipti með hann. Þeir telja að það eigi að gerast á uppboðsmörkuðum og það er bara gott. Ég er sannarlega sammála því að sem best væri þetta gert með sem mestu frelsi og þannig að sem allra flestir ættu möguleika á að ná til þess fisks sem kemur að landi á markaðnum sjálfum. Það er auðvitað hægt að gera með nútímatækni í gegnum tölvu og net og allt það. Möguleikarnir eru allir til staðar. Þeir eru heftir fyrst og fremst vegna eignarhaldsstefnunnar í veiðiheimildum á Íslandi. Menn verða að breyta afstöðunni til þessara mála með því annars vegar að skilja á milli veiða og vinnslu, sem skiptir öllu máli hvað þetta varðar sem við erum að tala hér um og hins vegar með því að breyta því hvernig veiðiheimildum er komið í hendur útgerðarmanna í þessu landi. Ef menn gera þetta ekki mun samþjöppunin halda áfram. Eignarhaldið er að færast hægt og bítandi á fáa og enn þá færri í framtíðinni. Nýliðunin er nánast engin miðað við aðrar atvinnugreinar og atvinnugreinar þar sem ekki er nýliðun verða á fallandi fæti.

Þetta er umhugsunarefni sem mér finnst að þeir sem bera ábyrgð á þessari stefnu ættu að leggja meiri tíma í að velta fyrir sér, þ.e. hver sé framtíðin miðað við eignarhaldsfyrirkomulagið. Ég velkist ekki í vafa um það. Það sem ég get bætt við þann rökstuðning núna er bara það sem menn geta komist að ef þeir fylgjast með hvað er að gerast núna á markaðnum. Enginn þorskur hefur t.d. verið til leigu undanfarna daga á markaðnum. Af hverju er það? Það er vegna þess að fréttir heyrðust um að vegna fuglaflensunnar mundi verð á þorski hækka og fiski almennt. Þá hættu menn sem hafa verið að selja mönnum aðgang að Íslandsmiðum að selja fiskinn vegna þess að þeir ætla að bíða og sjá til hvort þeir fái ekki hærra verð.

Þetta er framtíðin. Ef menn ætla að halda sig við þetta fyrirkomulag þá er þetta framtíðin, leigukerfi á vegum einkaaðila sem spilar á markaðinn alveg til enda. Þetta er framtíð eignarhaldsfyrirkomulagsins og það munu ekki líða neitt óskaplega mörg ár þangað til að það verður komið á og öllum hömlum verður létt af þessu eignarhaldi ef menn ekki sjá að sér hvað varðar þetta mál.